Lífið

Svakalegasta atvinnuumsókn sem sést hefur á FM957

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rikki G var steinhissa, enda ekki á hverjum degi sem andlitið á manni er á flennistóru auglýsingaskilti á Times Square í New York.
Rikki G var steinhissa, enda ekki á hverjum degi sem andlitið á manni er á flennistóru auglýsingaskilti á Times Square í New York.

Útvarpsmaðurinn Rikki G vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið í morgunþættinum Brennslunni á FM957 í morgun þegar Ólafur Jóhann Steinsson Tik-Tok stjarna sýndi honum flennistórt auglýsingaskilti á Times Square í New York þar sem hann hafði birt óvænta bón til útvarpsmannsins.

Þetta má sjá í myndskeiði úr þættinum á Instagram. Þannig er mál með vexti að Ólafur Jóhann hefur lengi átt sér þann draum að vinna í útvarpi. Draumurinn hefur ekki ræst og mætti Óli í Brennsluna með svakalegustu atvinnuumsókn sem sést hefur á FM957 og þó víðar væri leitað.

„Það sem þú þarft að vita þegar þú ferð í atvinnuviðtal er að manneskjan sem er að ráða þig inn má aldrei gleyma þér. Þannig þegar þú ferð á beddann í kvöld þá muntu aldrei gleyma mér,“ segir Ólafur Jóhann áður en hann sýndi Rikka myndbandið góða.

„Þetta var held ég á öðrum eða þriðja stærsta skjánum á Times Square,“ segir hlæjandi Ólafur Jóhann við Rikka sem var eðli málsins samkvæmt kjaftstopp. Tik-Tok stjarnan ræddi málið líka við vegfaranda sem virtist nokkuð hrifinn. Eva Ruza útvarpskona bregst við myndbandinu á Instagram og skorar á Rikka að ráða Ólaf. Það sé þörf á manninum í útvarpi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×