Lífið

Sacha Baron Cohen æfareiður út í Rebel Wilson

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rebel Wilson segist engu ætla að breyta.
Rebel Wilson segist engu ætla að breyta. EPA-EFE/ENNIO LEANZA

Bandaríski leikarinn Sacha Baron Cohen er æfareiður út í kollega sinn áströlsku leikkonuna Rebel Wilson vegna fullyrðinga um hann sem hún leggur fram í væntanlegri endurminningarbók sinni. Leikkonan segir að hún muni ekki breyta bókinni.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að heill kafli í bókinni leikkonunnar verði helgaður Sacha Baron Cohen. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvaða fullyrðingar eru lagðar þar fram en ljóst af fréttaflutningnum að þær eru ekki jákvæðar.

Talsmaður Sacha Baron Cohen hefur raunar sagt að leikarinn muni sjálfur leggja fram gögn sem sýni fram á að fullyrðingarnar séu falskar. Þau Rebel og Sacha léku saman í grínmyndinni Grimsby árið 2016. Þar lék Rebel kærustu persónu Sacha Baron Cohen, sem fór með hlutverk fótboltabullu sem sogast inn í njósnaheim bróður síns.

Sacha Baron Cohen segir gögnin vera með sér í liði gegn Rebel Wilson. EPA-EFE/Rick Rycroft / POOL

Sjálf hefur Rebel Wilson sagt á Instagram að hún muni ekki láta lögfræðinga þagga niður í sér. Bókin kemur út þann 2. apríl næstkomandi í Bandaríkjunum en talsmaður Cohen segir að ýmislegt sýni að fullyrðingarnar séu rangar. Meðal annars skjöl, myndefni og sjónvarvottar á vettvangi myndarinnar.

Rebel hefur áður sagt opinberlega að hegðun leikarans á settinu hafi verið til skammar. Hann hafi meðal annars ítrekað reynt að sannfæra hana um að strípa sig og fullyrt að kynlífsatriði þeirra væri það ógeðslegasta í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×