Lífið

Alls­konar byssur til sýnis á Stokks­eyri um helgina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Páll Reynisson, eigandi Veiðisafnsins á Stokkseyri en þar verður byssusýning um helgina.
Páll Reynisson, eigandi Veiðisafnsins á Stokkseyri en þar verður byssusýning um helgina. Aðsend

Það verður mikið um að vera á Stokkseyri um helgina því þar verður Veiðisafnið með byssusýningu um leið og því verður fagnað að nú eru tuttugu ár frá því að safnið hóf starfsemi sína á staðnum.

Páll Reynisson, eigandi Veiðisafnsins hefur verið með byssusýningu alltaf á þessum árstíma síðustu ár og nú er komið að sýningu þessa helgina sem er opin í dag til klukkan sex og svo á morgun frá ellefu til sex. Sýningin er haldin í samvinnu við verslunina HLAÐ í Reykjavík og PRS, sem er mótasería þar sem keppt er með nákvæmisrifflum og skotið á stálskotmörk á lengri færum. Á sýningunni er úrval skotvopna og búnaður til skotveiða, ásamt sjónaukum og aukabúnaði ýmiskonar.

„Svo er það þessi félagsskapur, sem kallar sig PRS Ísland og stendur fyrir „Precision Rifle Series “, en það er keppnisgrein sem er að vinna mikið á í Skandinavíu en kemur frá Ameríku. Þar er keppt með stórum og litlum rifflum á stálskotmörk á lengri færum. Þetta er mjög athyglisvert og gífurlega flottir og miklir rifflar, sem strákarnir sýna okkur hér,“ segir Páll.

Og er almenningur áhugi á byssusýningu sem þessari?

„Já, mikill áhugi. Svo er gaman að segja frá því að konum er að fjölga mikið í sportinu og að koma mikið inn í veiðina og í keppnisíþróttunum,“ segir Páll.

20 ára afmælis byssusýningin verður opin til 18:00 í dag, laugardag og á morgun frá klukkan 11:00 til 18:00 í húsakynnum Veiðisafnsins við Eyrarbraut 49 á Stokkseyri.Aðsend

Og Páll segist varla trúa því að hann sé búin að vera með Veiðisafnið á Stokkseyri í 20 ár, tíminn líði svo hratt.

„Tuttugu ár núna í maí já og stóð aldrei til, þetta bara gerðist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.