Umræðan

Er sam­fé­lags­á­byrgð tísku­bylgja?

Eyþór Jónsson skrifar

Ég heyrði áhrifamann í íslensku atvinnulífi halda erindi nýlega þar sem hann sagði að áherslan á samfélagsábyrgð hefði minnkað á undanförnum árum og bætti við að þessi „tískubylgja“ hefði nú þegar náð hámarki. Flestir í salnum virtust kinka kolli frekar en að malda í móinn. Það sem ég velti fyrir mér er hvort að þetta sé ráðandi viðhorf á Íslandi, að samfélagsábyrgð sé tískubylgja!

Það er áberandi að það er komin einhver þreyta í umræðuna um sjálfbærni og samfélagsábyrgð, sem er ekki hið sama en eru skyld hugtök. Kannanir á forgangsröðun hjá stjórnendum hafa verið að sýna minni áherslu á samfélagsábyrgð en áður og samfélagsábyrgð er ekki lengur stærsta áskorunin eins og hún hefur lengst af verið undanfarin áratug hjá fyrirtækjum um allan heim. Í sjálfu sér þarf það ekki að koma á óvart að önnur atriði hafi fengið meiri forgang til dæmis þegar Covid var sviðsmynd sem enginn hafði gert ráð fyrir og tæknibreytingar hafa snúið viðskiptaveruleika flestra fyrirtækja á hvolf. 

En það er líka erfitt til lengri tíma að gera „réttu hlutina“ og þegar stjórnendur skilja samfélagsábyrgð fyrst og fremst sem kostnað og áhættustjórnun að þá er freistandi að leggja áherslu á aðra þætti sem skipta meira máli fyrir framtíð félagsins, í huga stjórnandans.

Tískan

Það er samt áhugavert að orðið „tískubylgja“ hafi verið notuð í umræðu um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Samkvæmt hugmyndum um tískubylgjur (e. fad) í markaðsfræðum þá er hugtakið notað í tengslum við vörur eða þjónustu sem fá mikla eftirspurn á skömmum tíma og jafnvel einskonar æði skapast í kringum en eftirspurnin fellur síðan jafnharðan tiltölulega stuttu eftir að varan eða þjónustan náði þessari miklu athygli. Það er engan vegin hægt að nota það hugtak til þess að lýsa þróun á samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þróun á samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur haft djúpstæðar og varanlegar breytingar á viðskiptaheiminn. Samfélagsábyrgð er veruleiki fyrirtækja í dag. 

Kannanir á forgangsröðun hjá stjórnendum hafa verið að sýna minni áherslu á samfélagsábyrgð en áður og samfélagsábyrgð er ekki lengur stærsta áskorunin eins og hún hefur lengst af verið undanfarin áratug hjá fyrirtækjum um allan heim.

Til marks um þessa þróun er að fjárfestar þessa heims virðast líta á samfélagsábyrgð sem grundvallarviðmið í fjárfestingum. Samkvæmt Bloomberg Intelligence þá fór ESG tengd fjárfesting í sjóðsstýringu yfir 35 billjónir Bandaríkjadali árið 2020 og því er spáð að ESG tengd fjárfesting verið komin yfir 50 billjón dali árið 2025 sem er um þriðjungur af allri fjárfestingu í sjóðastýringu. Til að setja það í samhengi þá er það sirka 22 þúsund sinnum landsframleiðsla Íslands. Það er ekki slæm „tískubylgja!”

Tæki samfélagsins

Hugmyndin um samfélagsábyrgð fyrirtækja getur heldur ekki verið „tískubylgja“ út frá hugmyndafræði hagfræði né viðskiptafræði. Flestir harðir kapítalistar vitna í Adam Smith og Auðlegð þjóðanna frá árinu 1776, þegar á að sýna fram á að fyrirtækjarekstur eigi að snúa um framleiðni og hagnað.

Adam Smith skrifaði hins vegar aðra góða bók sem kom út á undan Auðlegð þjóðanna en það er Kenning um siðferðiskenndir (The Theory of Moral Sentiments), sem kom út árið 1759. Þar ræddi hann um mikilvægi samkenndar, siðferðis og þess að taka tillit til velferðar annarra. Smith taldi að þótt einstaklingar leiti að eigin hag, þá séu þeir einnig knúnir áfram af tilfinningum og siðferðisvitund sem leiðir þá til að bera umhyggju fyrir velferð annarra. Hann var vissu leyti að tala um samfélagsábyrgð þó að hugtakið væri ekki til undir því heiti á þeim tíma. 

Peter Drucker fjallaði í þrítugasta kafla bókar sinnar The Practice of Management frá 1954 um mikilvægi að þess að skilja fyrirtækið sem verkfæri samfélagsins og að það yrði að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu og hafa ávinning fyrir samfélagið, í raun væri það væri ávinningur fyrirtækisins. Þarna var Drucker að tala um hugmynd sem nú þekkist sem sameiginlegur ávinningur fyrirtækja og samfélags (e. shared value creation). Adam Smith hefur oft verið kallaður faðir hagfræðinnar og Peter Drucker stundum kallaður faðir viðskiptafræðinnar.

Fyrirtæki eins og IKEA og Unilever hafa verið að breyta viðskiptamódelum sínum með það að leiðarljósi að skapa tekjur og verðmæti út frá ESG.

Því má svo bæta við að ég skrifaði kafla í ritsafnið Handbook of Business Legitimacy – Responsibility, Ethics and Society (2020) þar sem ég fjallaði um að Berle og Means, höfundar The Modern Corporation and Private Property (1932), sem er oft talað sem upphafsrit umræðu um stjórnarhætti, töluðu líka um samfélagsábyrgð þó að fáir hefðu pikkað þá hugmynd rétt upp, ekki frekar en hugmyndir Adams Smiths. Hugmyndin um samfélagsábyrgð er þar af leiðandi jafn gömul og bæði hag- og viðskiptafræðin og þar af leiðandi ekki „tískubylgja.“

Verðmætasköpun

Vandamálið virðist vera að samfélagsábyrgð virðist enn hafa stimpilinn að hún snúist fyrst og fremst um kostnað og besta falli áhættustjórnun hjá fyrirtækjum. Að vera „góður borgari“ getur alveg verið áhugavert félagslegt viðmið fyrirtækja en áhuginn virðist dvína hratt hjá stjórnendum þegar það þýðir einungis kostnaður. Þetta er hins vegar misskilningur hvað varðar hugarfar. Það er miklu áhugaverðari leið að horfa á samfélagsábyrgð sem grundvallarþátt í verðmætasköpun. Verðmætasköpun sem getur; a) aukið tekjur, b) dregið úr kostnaði, og c) bætt áhættustjórnun. Allt eru það þættir sem skila sér beint í budduna. Þá má ekki gleyma ófjárhagslegum áhrifum, sem geta vel skilað sér líka í aukinni verðmætasköpun, sem eru þættir eins og; a) betri ímynd, b) aukin áhugi og þátttaka starfsmanna, og c) aukin tryggð viðskiptavina.

Fyrirtæki eins og IKEA og Unilever hafa verið að breyta viðskiptamódelum sínum með það að leiðarljósi að skapa tekjur og verðmæti út frá ESG. Fyrirtæki eins og Tesla og Patagonia hafa þróað viðskiptahugmyndir sínar út frá ESG hugmyndafræðinni. Það sem þarf að gerast er að stjórnendur verða í auknum mæli að hugsa sjálfbærni sem tækifæri og tekjusköpun en ekki sem áhættu og kostnað.

Langt í land

Það eru mörg fyrirtæki sem eru að gera mjög góðar árs-og samfélagsskýrslur eins og til dæmis Vínbúðin, Landsbankinn, Isavia, Controlant, Marel og Creditinfo. Sérfræðiþekking er að aukast innan fyrirtækja. Það segir hins vegar ekki alla söguna. 

Að vera „góður borgari“ getur alveg verið áhugavert félagslegt viðmið fyrirtækja en áhuginn virðist dvína hratt hjá stjórnendum þegar það þýðir einungis kostnaður.

Ég hef verið að gera rannsóknir á stjórnum, endurskoðunarnefndum og endurskoðendum undanfarin ár í samstarfi við Einar Guðbjartsson hjá Háskóla Íslands og Jón Snorra Snorrason hjá háskólanum á Bifröst. Niðurstöður nýlegra rannsókna okkar benda til að þrátt fyrir að krafan sé um að íslensk fyrirtæki verði að fara gera skil á ófjárhagslegum mælikvörðum sem tengjast ESG og sjálfbærni eru stjórnir fyrirtækja, endurskoðunarnefndir og endurskoðendur ekki tilbúnir til þess að takast á við þessar nýju áskoranir. Það virðist vanta verulega upp á þekkingu á þessu sviði hér á landi. Þá er einungis verið að tala um áskorunina um hvernig á að upplýsa hluthafa og aðra hagaðila um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Það er enn stærri áskorun fyrir stjórnendur að endurskoða viðskiptamódel með samfélagsábyrgð að leiðarljósi.

Frumskógur

Félagi minn Kersi Porbunderwala sem stýrir Copenhagen Compliance sagði nýlega í Think tank um skyldur (e. compliance) fyrirtækja að regluverkið í kringum samfélagsábyrgð væri frumskógur þegar mætti finna hátt í 300 viðmið sem fyrirtæki eiga að taka tillit til. World Economic Forumleiddi átak árið 2020 til að búa til sameiginleg viðmið til þess að greiða úr þessum frumskógi, viðmið sem komu fram í skýrslunni Measuring Stakeholder Capitalism: Towards Common Metrics and Consistent Reporting of Sustainable Value Creation, þar sem stóru endurskoðunarfyrirtækin og 120 stórfyrirtæki stóðu á bak við hugmyndafræðina.

Engu að síður hefur gengið illa að samræma mælikvarða á milli landa og það er enn gríðarleg áskorun fyrir fyrirtæki að finna út hvernig á að skýra frá samfélagsábyrgð sinni með aðgengilegum og skýrum hætti. Það er hins vegar enn mikilvægara að týnast ekki í skóginum og muna að samfélagsábyrgð á ekki að vera stapp um skylduviðmið heldur stefnumarkandi umræða fyrir fyrirtæki sem miðar að verðmætasköpun fyrir hluthafa, jafnt sem aðra hagaðila.

Verk að vinna

Paul Polman (ásamt Andrew Winston), fyrrum forstjóri Unilever, skrifaði bókina Net Positives em kom út 2021 og hefur vakið mikla athygli og honum hefur verið hrósað mikið fyrir enda er hann að tala um að áherslan á samfélagsábyrgð er eina rétta framtíð fyrirtækja. Í fyrra kom út bókin The Lonely Quest of Unilever's CEO Paul Polman eftir hollenska blaðamanninn Jeroen Smit. Eins og titillinn gefur til kynna þá var vegferð Pauls enginn beinn og greiður vegur heldur má segja að hann hafi mætt miklu mótlæti enda var hann nokkuð á undan sinni samtíð í þessari áskorun að umbreyta Unilever. Sennilega væri Unilever talsvert öðruvísi fyrirtæki í dag ef allt hefði gengið eftir hjá Paul Polman. 

Það er enn mikilvægara að týnast ekki í skóginum og muna að samfélagsábyrgð á ekki að vera stapp um skylduviðmið heldur stefnumarkandi umræða fyrir fyrirtæki sem miðar að verðmætasköpun fyrir hluthafa.

Sú saga segir okkur að það er mikil áskorun að umbreyta risafyrirtækjum eins og Unilever. Þetta er hins vegar áskorun sem allir stjórnendur fyrirtækja verða að takast á við. Allavega er erfitt að sjá að stjórnendur geti með nokkru móti ákveðið að taka ekki slaginn og segja að þessi umbreyting sé einungis tískubylgja!

Höfundur er forseti Akademias.


Tengdar fréttir

Heimsfaraldur ESG

Hugmyndin um ábyrgar fjárfestingar hefur farið um Vesturlönd eins og eldur í sinu. Á milli áranna 2005 og 2018 kom hugtakið ESG fram í brotabroti af uppgjörstilkynningum skráðra fyrirtækja samkvæmt greiningu eignarstýringarfélagsins Pimco. Þremur árum síðar var hlutfallið komið í tuttugu prósent.

Reginn greiddi út kaupauka fyrir árangur á sviði sjálf­bærni­mála

Fasteignafélagið Reginn greiddi út kaupauka til lykilstjórnenda félagsins fyrir árangur á sviði sjálfbærnimála á árinu 2022. Þetta er í fyrsta sinn sem fasteignafélagið greiðir út sjálfbærnitengda kaupauka en aðeins eitt annað fyrirtæki í Kauphöllinni, Marel, hefur innleitt álíka hvatakerfi fyrir stjórnendur.




Umræðan

Sjá meira


×