Lífið

Ryan Gosling sár­svekktur yfir Óskar­stil­nefningunum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ryan Gosling á setti Barbie myndarinnar með þeim Margot Robbie og Gretu Gerwig.
Ryan Gosling á setti Barbie myndarinnar með þeim Margot Robbie og Gretu Gerwig. Jaap Buitendijk/Warner Bros. Pictures/AP

Kanadíski leikarinn Ryan Gosling segist vera vonsvikinn og sársvekktur vegna þess að Greta Gerwig, leikstjóri Barbie og Margot Robbie, aðalleikkona myndarinnar, hafi ekki verið tilnefndar til Óskarsverðlauna líkt og hann sjálfur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá leikaranum. Tilkynnt var í gær hverjir hefðu verið tilnefndir til Óskarsverðlauna. Barbie myndin hlaut alls átta tilnefningar.

Í tilkynningu sinni tekur Gosling fram að hann væri himinlifandi með að vera tilnefndur í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt sem „plastdúkka að nafni Ken.“ Hann tók fram að hann væri ánægður fyrir hönd samleikara síns, America Ferrera, sem tilnefnd var í flokki leikkvenna í aukahlutverki.

„En það er enginn Ken án Barbie og það er engin Barbie mynd án Gretu Gerwig og Margot Robbie,“ segir leikarinn í tilkynningunni. Hann segir þær stöllur bera mesta ábyrgð á myndinni og gríðarlegri velgengni hennar.

„Það væri ekki hægt að veita neinum við gerð þessarar myndar viðurkenningu ef ekki hefði verið fyrir hæfileika þeirra og snilligáfu,“ segir leikarinn. Hann segir orð ekki ná utan um það hve svekktur hann er yfir því að þær hafi ekki verið tilnefndar.

„Þvert á allar væntingar og með ekkert nema sálarlausar, fáklæddar og sem betur fer kloflausar dúkkur í farteskinu, fengu þær okkur til að hlæja, brutu hjörtu okkar og skráðu sig á spjöld sögunnar. Vinna þeirra ætti að hljóta viðurkenningu, líkt og allra hinna sem hlutu tilnefningu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×