Sport

Vallarmark á síðustu sekúndunum tryggði sigurinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jason Sanders tryggði Miami Dolphins sigurinn gegn Dallas Cowboys í nótt.
Jason Sanders tryggði Miami Dolphins sigurinn gegn Dallas Cowboys í nótt. Vísir/Getty

Miami Dolphins vann dramatískan 22-20 sigur er liðið tók á móti Dallas Cowboys í NFL-deildinni í amerískum fótbolta í nótt. Jason Sanders tryggði liðinu sigurinn á lokasekúndum leiksins.

Það var einmitt Sanders sem skoraði fyrstu stig leiksins þegar 52 metra spark hans rataði rétta leið tæpum þremur mínútum fyrir lok fyrsta leikhluta. CeeDee Lamb kom gestunum frá Dallas þó yfir með snertimarki stuttu síðar og aukastigið þýddi að kúrekarnir leiddu með fjórum stigum að loknum fyrsta leikhluta, staðan 3-7.

Sanders skoraði svo annað vallarmark sitt um miðjan annan leikhluta áður en sending Tua Tagovailoa á Raheem Mostert skilaði heimamönnum sínu fyrsta snertimarki leiksins og þeir höfðu því forystuna í hálfleik, staðan 13-7.

Áfram var það Sanders sem sá að miklu leyti um að koma stigum á töfluna fyrir Miami-liðið og tvö vallarmörk hans í þriðja leikhluta, gegn einu vallarmarki Brandon Aubrey, sáu til þess að heimamenn leiddu með níu stigum fyrir lokaleikhlutann.

Gestirnir frá Dallas skiluðu einu vallarmarki og einu snertimarki á fyrstu átta mínútum fjórða leikhluta og náðu þar með forystunni þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum.

Heimamenn höfðu þó nægan tíma í sína síðustu sókn sem endaði með því að Jason Sanders tryggði liðinu sigurinn með sínu fimmta vallarmarki í leiknum, lokatölur 22-20.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×