Lífið

Þau komu til Ís­lands 2023

Jón Þór Stefánsson skrifar
Það var algjör stjörnufans á Íslandi á árinu sem er að líða.
Það var algjör stjörnufans á Íslandi á árinu sem er að líða. Vísir/EPA/Sara

Hópur svokallaðra Íslandsvina stækkaði umtalsvert á árinu sem er að líða. Vegna fjölda funda sem fóru fram hér á landi bættust erlendir stjórnmálaleiðtogar í umræddan hóp. Þá tróð heimsfrægt tónlistarfólk upp á Íslandi á árinu. Aðrir voru komnir á klakann í öðrum erindagjörðum, sumir voru einfaldlega í fríi.

Mikið fór fyrir tónleikum bandarísku poppsveitarinnar Backstreet Boys í apríl á þessu ári. Þrír meðlimir strákasveitarinnar geysivinsælu, Brian Littrell, Nick Carter og Howie Dorough, sýndu frá ferðalögum sínum um landið á samfélagsmiðlum.

Backstreet strákarnir heimsóttu meðal annars Ingólfsskála í Ölfusi, Bláa lónið og einn þeirra fékk sér pylsu á Bæjarins bestu. Brian Littrell virtist svo ánægður með heimsóknina að hann sagðist ætla að koma aftur.

Mismikil Íslandsreynsla gamalla goðsagna

Ian Anderson, forsprakki goðsagnakenndu rokkhljómsveitarinnar Jethro Tull, komið hingað til lands með bandinu og steig á stokk. Það var þó ekki í fyrsta skipti sem Anderson kom til Íslands, en hann hefur troðið upp oftar en tíu sinnum hér á landi.

„Ísland kom mér strax, þegar ég kom þangað fyrst, kunnuglega fyrir sjónir. Landslagið er mjög svipað og er í norðvestur Skotlandi. Þar sem fólk sækir sér björg í bú með að róa á hafið á bátum og skipum í allskyns veðrum. Og þarf að hluta til að reiða sig á ferðamennsku auk tekna af náttúruauðlindum. Í Skotlandi eru vindorkuver sem gefa raforku sem flutt er út og á Íslandi háhitasvæði. Fólk í norðvestur Skotlandi og á Íslandi er ekki ólíkt. Langar vetrarnætur, fólk drekkur of mikið og dettur í götuna,“ sagði Ian Anderson í samtali við Vísi á apríl á þessu ári, skömmu fyrir tónleikana.

Það voru fleiri gamlar hetjur sem komu til Íslands til að koma fram. Tónlistarmaðurinn Nik Kershaw, Tony Hadley söngvari Spandau Ballet, og Midge Ure söngvari Ultravox komu hingað til lands til að fagna 35 ára afmæli Todmobile

„Eftir 43 ár í bransanum eru þau ekki mörg löndin sem maður hefur ekki heimsótt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem hingað. Eiginkona mín hefur þó komið hingað nokkrum sinnum og hún hefur sagt að landið væri eitt það fegursta sem hún hefði heimsótt og mér sýnist á öllu að hún hafi rétt fyrir sér. Landið er sláandi fallegt,“ sagði Tony Hadley við fréttastofu fyrir afmælistónleikanna sem fóru fram í Hörpu.

Franska leikkonan Isabelle Huppert var heiðursgestur á Riff árið 2023. Í samtali við Vísi sagðist hún áhugasöm um íslenska kvikmyndagerð og vera spennt fyrir því að vinna með íslenskum leikstjóra.

Norska hljómsveitin Subwoolfer kom einnig til landsins, en hún kom fram í úrslitum Söngvakeppni sjónvarpsins í mars. Hljómsveitin vakti athygli í Eurovision árið áður með laginu Give That Wolf A Banana, en þeir klæddust í eftirminnilega gula búninga og jakkaföt.

Gulu úlfarnir voru ekki einu Eurovision-stjörnurnar sem mættu til landsins á árinu, langt því frá. Skömmu eftir að sænska tónlistarkonan Loreen kom, sá og sigraði söngvakeppnina í annað skipti, mætti hún á klakann. Fram kom að hún væri hér á landi vegna samstarfs síns við ís­lenska tón­listar­manninn Ólaf Arnalds.

Leiðtogar úr öllum áttum á Íslandi

Erlent stjórnmálafólk var áberandi á Íslandi þetta árið. Helsta ástæðan fyrir því var leið­toga­fundur Evrópu­ráðsins sem var haldin í Reykjavík í maí.

Á fundinn mættu Emmanuel Macron, Frakk­lands­for­seti, Olaf Scholz, kanslari Þýska­lands, Rishi Sunak, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, og Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ásamt mörgum fleirum.

Sumir leiðtoganna leifðu sér að gera eitthvað annað en að funda á Íslandi. Macron fór á Þingvelli og Jonas Gahr Støre, for­sætis­ráð­herra Noregs, heim­sótti Sund­höll Reykja­víkur, sem hann segir að sé hefð hjá sér þegar hann kemur til Íslands.

„Það er eitt­hvað við þá stað­reynd að þau tala sama tungu­mál og við töluðum fyrir hundruðum ára. Ég upp­lifi alltaf hlýjar til­finningar,“ sagði Støre við NRK um Ísland.

Athygli vakti hversu vel fór á með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Girogiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, þegar þær hittust á leiðtogafundinum í Hörpu. Katrín var gagnrýnd fyrir það og hún sökuð um að vingast við fasista, þar sem flokkur Meloni á ættir að rekja til fasistaflokka.

„Fundurinn sem hér var haldinn er leiðtogafundur Evrópuráðsins og Ísland er gestgjafi þessa fundar - og hann sækja leiðtogar allra aðildarríkja Evrópuráðsins. Það er ekki þannig að ég láti stjórnmálaskoðanir mínar trufla það hvernig ég tek á móti fólki sem er hingað að koma, til alvarlegs samtals um risastór mál á vettvangi alþjóðastofnunar, heldur tek ég vel á móti öllum,“ svaraði Katrín gagnrýninni.

Sumarfundur forsætisráðherra norðurlandanna fór einnig fram á Íslandi, nánar tiltekið í Vestmannaeyjum. Þangað mættu þó ekki bara norrænu ráðherrarnir, heldur var einn heiðursgestur með í för. Það var Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada

Leiðtogarnir snæddu á veitingastöðunum Slippnum og Næs, en það var matreiðslumaðurinn Gísli Matthías Auðunsson sem tók á móti þeim.

„Í enda máltíðarinnar spurði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada sem ég hef fylgst með lengi og verið mikill aðdáandi að hvort þau mættu ekki fá mynd af sér með mér þá verð ég að viðurkenna að ég bráðnaði smá og sagði; allt í lagi, bara fyrir ykkur!“ sagði Gísli í samtali við Vísi.

Clinton olli usla

Frægasti stjórnmálamaðurinn sem kom til íslands árið 2023 er þó mögulega enn ónefndur. Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og forsetafrú Bandaríkjanna, var gestur á bókmenntahátíðinni Iceland Noir þar sem hún ræddi spennusögu sem hún skrifaði ásamt rithöfundinum Louise Penny.

Heimsókn Clinton vakti ekki síst athygli vegna viðbragða við henni. Sjötíu rithöfundar afboðuðu komu sína, en í yfirlýsingu hópsins sagði að ástæðan væri að hún hefði beitt sér „opinberlega gegn því að vopnahlé verði gert á yfirstandandi þjóðarmorði ísraelshers í Palestínu. Einnig hefur hún um árabil notað sinn breiða vettvang til þess að dreifa áróðri Ísraelsstjórnar og röngum upplýsingum með tilheyrandi skaða fyrir palestínsku þjóðina.“

Þess má geta að aðrir frægir rithöfundar mættu á hátíðina, líkt og Dan Brown og Neil Gaiman.

Stjörnufans um allt land

Hollywood-leikarinn Chris Hemsworth, sem er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk Þórs þrumuguðs í Marvel-kvikmyndabálknum, kom til Íslands í haustbyrjun. Hann ferðaðist um landið ásamt dóttur sinni, Indiu Rose.

Á meðal þess sem þau tóku sér fyrir hendur var jöklaklifur, laxveiði, og þá fóru þau í fjórhjólaferð og í reiðtúr. „Einn fallegasti staður sem ég hef komið til. Takk fyrir Ísland!“ skrifaði hann á Instagram-síðu sína að ferðinni lokinni.

Bandaríska sjónvarpskonan Martha Stewart kom einnig til landsins. Ólíkt Hemsworth virðist hún ekki hafa farið vítt og breytt um landið, heldur ferðaðist hún aðallega á milli fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Hún fór meðal annars í súkku­laði­verk­smiðjuna Omnom, til græn­metis­fram­leiðandans VAXA, í Íslenska erfðagreiningu, og í Sky Lagoon.

Þó er mögulegt að hún hafi séð meira af íslenskri náttúru, en Stewart fór í þyrluferð frá Reykjavíkurflugvelli.

Ferðafélagi Mörthu var ekki af verri gerðinni, Dorrit Moussaieff, fyrr­verandi for­seta­frú, var með í för.

Bandaríska leikkonan og grínistinn Amy Poehler kom líka til Íslands. Hún sýndi myndband frá heimsókn sinni á samfélagsmiðlinum TikTok, en þar mátti sjá hana í Bláa lóninu, við Geysi, og á Skólavörðustíg.

Matgæðingar á ferð

Stjörnukokkurinn Gordon Ramsay hefur oft látið sjá sig á Íslandi á síðustu árum og hann lét sig ekki vanta sumarið 2023. Á meðal þess sem Ramsay gerði var að snæða á veitingastaðnum í Þrastarlundi, á OTO á Hverfisgötu, og þá sást til hans á kokteilbarnum Tipsý í miðborg Reykjavíkur.

Sigurður Lauf­dal, kokkur á OTO, sagði í sam­tali við Vísi að hann hafi ekki trúað eigin augum þegar hann sá að Ramsay ætti bókað borð.

„Svo var hann bara kominn inn í eld­hús til okkar og lét eigin­lega bara eins og heima hjá sér. Hann var alla­vega á­nægður með matinn og sagði þetta besta mat sem hann hefur smakkað á Ís­landi. Auð­vitað setur maður á það smá fyrir­vara, hann var kannski bara að vera kurteis, en þetta sagði hann!“ sagði Sigurður.

Ramsay var ekki eina stjarnan sem fór út að borða á Íslandi á árinu sem er að líða. Til að mynda fengu tveir heimsfrægir fótboltamenn sér snæðing.

Markvörður Bayern München og þýski heimsmeistarinn Manuel Neuer borðaði á veitingastaðnum Hygge í Fljótshlíðinni og fékk sér kaloríusnauðan Gull Light með matnum.

Í frétt á Vísi var greint frá því að hann hafi varið þremur klukkustundum á staðnum, meðal annars vegna þess að aðdáendur hans náðu tali af honum. Þá er vert að nefna að Neuer skartaði lopapeysu í umræddri ferð.

Fernando Torres, sem er hvað þekktastur fyrir að spila fyrir Liverpool, borðaði í gróður- og veitingahúsinu Friðheimum í Reykholti. Tryggvi Örn Gunnarsson, sem er mikill stuðningsmaður enska liðsins, kom auga á kappann og gaf sig á tal við hann.

Að sögn Tryggva þóttist Torres ekki kannast við það að vera frægur í fyrstu, en samþykkti á endanum að stilla sér upp á mynd með honum.

Bandaríski rapparinn Travis Scott fékk sér líka góðan verð. Hann borðaði hamborgara á Íslandi. Íslenski rapparinn Daniil hitti hann á Dirty burger and ribs og birti mynd af þeim á samfélagsmiðlum.

Scott var sagður vera hér á landi vegna kvikmyndunar á tónlistarmyndbandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.