Tónlist

Skálm­öld til­kynnir tón­leika­röð: „Drullusama“ hvort hug­myndin sé góð

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Skálmöld verður með þrenna tónleika á næsta ári.
Skálmöld verður með þrenna tónleika á næsta ári. Skjáskot/Facebook

Skálmöld spilar allar hljóðversplöturnar sínar sex á þremur kvöldum í Eldborg í nóvember á næsta ári. Sveitin tilkynnti þetta í þætti Ómars Úlfs á X-inu rétt í þessu.

Öll kvöldin verða sett upp þannig að bandið spilar eina plötu fyrir hlé og aðra eftir hlé. Allra hörðustu aðdáendum gefst því tækifæri til þess að heyra hvert einasta lag sem sveitin hefur sett á breiðskífu við bestu mögulegu aðstæður. 

„Kammerkórinn Hymnodia verður strákunum til halds og trausts en annars mun tónlistin njóta sín í upprunalegri útgáfu. Textum verður varpað upp á tjald og sitthvað fleira gert fyrir augu og eyru.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá Skálmöld á Hlustendaverðlaununum árið 2014: 

„Ég eiginlega veit ekki hvort þetta er góð hugmynd,“ segir Snæbjörn Ragnarsson bassaleikari og textahöfundur hljómsveitarinnar. 

„Og satt best að segja er okkur drullusama. Ég viðurkenni að það væri vissulega meira gaman að spila þetta í gegn fyrir fullu húsi frekar en tómu, en Skálmöld hugsar alltaf um það fyrst og síðast að hafa gaman og að ögra okkur sjálfum. 

Við hefðum getað gert eitthvað miklu einfaldara og smærra í sniðum, en þegar þessi hugmynd kviknaði var hún bara of góð til að sleppa henni.“

Og kunna menn öll lögin núna 13–14 árum eftir að fyrsta platan kom út?

„Alls ekki. En við höfum næstum ár til þess að æfa okkur. Við höfum reyndar þann sið að dusta reglulega rykið af lögum sem við höfum vanrækt. En mörg þeirra hafa ekki verið spiluð á sviði í mjög mörg ár — og sum reyndar aldrei. Þetta verður áskorun. En það er nú einmitt það sem er svo gaman.“

Tónleikarnir verða fyrsta, annan og þriðja nóvember 2024. Miðasalan hefst klukkan 12:00 á hádegi miðvikudaginn 6. desember á Tix.is.

Viðtal Ómars Úlfs við Snæbjörn frá því í dag má hlusta á hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir

Síðustu heiðarlegu Skálmaldartónleikar ársins

Skálmöld er komin heim eftir mikið tónleikaferðalag erlendis og ætlar að sinna Íslendingum eftir langan þurrk. Tvöfaldir tónleikar á Gauknum auk annarra á Græna hattinum og svo er það Sinfóníuhljómsveitin í ágúst í Eldborg. Svo er verið að vinna í nýrri músík.

Skálm­öld hættir í bili

„Skálmöld hefur ákveðið að taka sér pásu eftir árið 2019 um óráðinn tíma.“ Þetta segir í tilkynningu frá þungarokkssveitinni á Facebook síðu hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.