Lífið

Setja á svið stór­brotna sögu Fúsa: „Eins­dæmi í ís­lensku leik­húsi“

Íris Hauksdóttir skrifar
Frændurnir Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson og Agnar Jón Egilsson setja á svið sýnininguna Fúsi en hún er byggð á ævi þess fyrrnefnda.
Frændurnir Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson og Agnar Jón Egilsson setja á svið sýnininguna Fúsi en hún er byggð á ævi þess fyrrnefnda. Vísir/RAX

Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingu sem leiddi til þess að hann lamaðist að hluta til hægra megin í líkamanum. Þrátt fyrir fötlun sína er óhætt að fullyrða að Fúsi lifi lífinu til fulls.

Hann er trúlofaður og býr í fallegu fjölbýli. Göngugarpur og hlaupari sem tekur þátt í Reykjarvíkurmaraþoninu á hverju ári með áheitum fyrir Styrktarfélagið Ás, þar sem hann vinnur við ýmis störf.

Frændurnir útfæra verkið sem heimildasýningu, bæði í formi viðtals, spuna og endurminninga.Vísir/RAX

Fúsi er jafnframt stofnfélagi Perlunnar og starfar enn með leikhópnum. Hann skrifar upp bækur á hverju ári og er mikill fótboltaáhugamaður. Ofar öllu öðru minnir Fúsi samferðafólk sitt reglulega á að lífið sé alltaf þess virði að lifa því þó stundum sverfi að.

Enn að bíða fimmtíu árum síðar

Þegar Fúsi var níu ára keyrði móðir hans hann upp á Sólheima og hélt sjálf til Ameríku. Hún lofaði að sækja hann síðar. Fimmtíu árum síðar er Fúsi enn að bíða eftir móður sinni.

Faðir hans sinnti honum lítið sem ekkert en þegar Fúsi var ekki á Sólheimum sem barn hélt hann til hjá móðurömmu sinni og afa í Meðalholtinu í Reykjavík. Þrátt fyrir stífa drykkju móðurafa síns reyndist amma Laufey mikill verndarengill í lífi Fúsa.

Saga Fúsa er sýnd um þessar mundir í Borgarleikhúsinu. Sýningin er sett upp á vegum Lista án landamæra af sviðslistahópnum Monochrome og markar tímamót í íslensku leikhúsi því þetta er í fyrsta sinn sem leikrit um, eftir og leikin af leikara með þroskaskerðingu er sett á svið hér á landi.

Handritið er í senn átakamikið og sprenghlægilegt.Vísir/RAX

Fengu óvænt þrjú ár af spjalltíma

Leikstjóri og annar handritshöfundur sýningarinnar, Agnar Jón Egilsson er náfrændi Fúsa og segir hann einstök tengsl ríkja þeirra á milli.

„Upphaflega sáum við fyrir okkur tveggja vikna vinnuferli en svo skall heimsfaraldurinn á og allt í einu fengum við þrjú ár af spjalltíma. Útkoman er þessi sýning,“ segir Agnar og heldur áfram.

„Saga Fúsa er lygileg, það eru sem dæmi ekki margir íslenskir leikarar sem hafa leikið fyrir varaforseta Bandaríkjanna inn í Hvíta húsinu sjálfu – en það hefur Fúsi gert.“

Er minning sannleikur?

Þeir Agnar og Fúsi deila sviðinu með leikkonunum Halldóru Geirharðsdóttur, Völu Kristínu Eiríksdóttur og píanóleikaranum Agli Andrasyni. Hann segir sýninguna byggja á miklu trausti.

Saman skipa fimmmenningarnir leikhópinn og eru öll á sviðinu allan tímann.Borgarleikhúsið
„Við rifjum upp sára sem og stórkostlega hluti úr lífi Fúsa. Sýningin er í raun sjö liða verk sem fer yfir ævi hans, missinn, daginn í dag, framtíðina og auðvitað ömmu okkar beggja – verndarengilinn. 

Fúsi sjálfur er miðjan í sýningunni. Einstaklingurinn sem hefur fengið svo mörg flott tækifæri en á sama tíma svo óteljandi ögranir í lífinu og tekist á við þær með einstökum hætti.“

Fúsi leiðir sjálfur frásögnina sem leikhópurinn glæðir lífi á sviðinu.Borgarleikhúsið

Agnar segist þakklátur Borgarleikhúsinu fyrir samstarfið en auðvelt hafi verið að auglýsa sýninguna, þökk sé aðalleikaranum.

„Fúsi er félagslyndasti maður sem ég þekki. Hann hefur verið duglegur að deila fréttum af sýningunni og margir eru spenntir að mæta og sjá. Við erum mikið að leika okkur með formið og engin sýning verður eins. 

Fúsi man ekki eins eftir lífi sínu í dag og á morgun sem lætur mann sitja eftir með spurninguna: Er minning sannleikur? Og hver er þá munurinn á tilfinningunni sem situr eftir ef hún er ekki sönn? Fólk man ekki allt eins af sama atviki og svo eru sumar minningar komnar frá þriðja aðila.“

Sterkari en fötlunin

Spurður um boðskap sýningarinnar segir Agnar hann á vissan hátt vera pólitískan.

Sýningin Fúsi er einsdæmi í íslensku leikhúsi.Borgarleikhúsið

„Það að setja á svið sýningu þar sem einstaklingur með fötlun er framkvæmdaaðilli frá byrjun til enda og sannar með því að hann sem einstaklingur er sterkari en fötlunin sem hann lifir með finnst mér svo sterkt. En það á ekki að vera það fyrsta sem fólk hugsar þegar það gengur inn í salinn. 

Að lifa á styrkleikanum sínum og trúa á sjálfan sig, sama hvað bjátar á, með húmorinn að leiðarljósi er eitthvað sem Fúsi hefur tamið sér og það stoppar hann ekkert. Hann hefur eiginleika sem hafa gert honum kleift að gera líf hans skemmtilegt og gott.“

Þakka ömmu sinni fyrir veganestið

Þarna kemur óhjákvæmilega upp spurningin hvað sé meðfætt og hvað sé veganesti. Agnar segist þakka ömmu sinni fyrir að hafa leitt veginn í átt að slíku svari.

„Amma gaf okkur barnatrú og við höfum báðir fengið mikinn styrk frá henni. Það að vita að maður geti leitað til sterkra einstaklinga í kringum sig gefur manni mikið, hvort sem það snýst um að hugsa til þeirra eða leita til í eigin persónu. Svo er hitt, sem er aðferðafræði hjartans og hugans í átt að jákvæðri heimsmynd. Fúsi er gríðarlega góður í því. 

Þeir Fúsi og Agnar Jón eiga einstakt samband.Vísir/RAX

Hann gengur til að mynda tuttugu kílómetra á dag og hleypur þess á milli maraþon þrátt fyrir að vera lamaður í öðrum fæti. Hann segir það bara gott fyrir fótinn og slíkt þarf ekki að ræða meira. Hugmyndin um að eitthvað sé erfitt er alltaf í öðru sæti í hans huga.“

Þráði alltaf að setja upp þessa sýningu

Fúsi fæddist árið 1964 og segir Agnar dásamlegt fólk hafa fylgt honum þrátt fyrir að kerfið hafi brugðist.

„Hugmyndin um fötluð börn á þessum tíma var sú að þau byggju yfir minni tilfinningagreind en önnur börn. Sálfræðiaðstoð var engin en það var gott fólk sem annaðist Fúsa á Sólheimum. 

Hins vegar var líka fólk sem var ekki gott við hann sem gerist þegar kerfið kastar barni fram og til baka í kerfinu. Lærdómur hans var að dvelja ekki við það vonda. Á bak við Fúsa standa sterkar konur sem hafa farið í gegnum lífið með honum. Það eru stólparnir í lífi hans og þær eru uppbygging verksins.“

Agnar segir sýninguna sannkallað draumaverkefni.

„Þetta er sýningin sem ég þráði að gera. Sögumaðurinn tekur upp á því að breyta leiðinni að sínum sannleika á hverjum degi og þá er ekkert annað hægt en að vera stöðugt á tánum. Ég vonast sannarlega eftir því að áhorfendur eigi eftir að gráta og hlæja með okkur Fúsa því það er svo margt hægt að læra af honum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.