Tónlist

Rappa um verka­lýðinn, sam­einað Ír­land og mál­vernd

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Meðlimir Kneecap á baðherberginu á Gauknum frá vinstri: Mo Chara, DJ Próvaí og Mo Chara
Meðlimir Kneecap á baðherberginu á Gauknum frá vinstri: Mo Chara, DJ Próvaí og Mo Chara Vísir/Rafn Ágúst

Írska rapptríóið Kneecap hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og það bæði af góða og slæma toganum. Það er kannski helst fyrir ögrandi textasmíð og krassandi framkomu. Í lögum sínum láta þeir í ljós vanþóknun sína á hendur ráðandi öflum, stuðning þeirra við hinn umdeilda Írska lýðveldisher og ýmislegt fleira lítt ríkisútvarpshæft.

En það er kannski ekki síst vegna þess að textinn er að mestu leyti á írsku. Þeir spiluðu á Gauknum síðasta föstudag á vegum Iceland Airwaves. Blaðamaður Vísis fékk að koma í hljóðprufu til þeirra og ræða aðeins við þá um tónlistina, tungumálið og baráttuna.

Kneecap hefur selt upp tónleika í Belfast og Dyflinni.Cat Gundry Beck

Rappsveitin sem samanstendur af þeim Mo Chara, Móglaí Bap og grímuklædda pródúsentinum DJ Próvaí á rætur sínar að rekja til írskumælandi hverfis í vesturhluta Belfastborgar í Norður-Írlandi. Þar hljómuðu írsk þjóðtónlist, raftónlist og hipphopp til skiptis í löngum partíum og hefur það litað tónlist tríósins. „Við djömmum, tökum alsælu, drekkum of mikið og við tölum írsku. Það er það sem við viljum að skili sér í tónlistinni, þannig fæddist Kneecap,“ sagði Mo Chara.

Þeir brutust fram í sviðsljósið árið 2017 með útgáfu lags þeirra „CEARTA“ sem þýðir réttindi og var þeirra innslag í umræðuna um réttindi írsks máls á Norður-Írlandi. Lagið hlaut enn meiri athygli eftir að írskumælandi útvarpsrásin RTÉ Raidió na Gaeltachta bannaði spilun lagsins vegna „vitnana í eiturlyfjanotkun og mikils blóts.“ Síðan þá hefur þeirra einstaka blanda af kraftmikilli raftónlist og einföldum hipp-hopp töktum heillað hlustendur um allan heim.

„Foreldrar okkar fengu aldrei tækifæri til að læra írsku“

„Það er ýmislegt líkt með Íslandi og Írlandi. Ég held að það sé þess vegna sem allir eru svona myndarlegir hérna, þið rænduð öllu myndarlega fólkinu á Írlandi og komuð með þau hingað, fyrir utan kærusturnar okkar,“ sagði Móglaí Bap við blaðamann og vitnar í þá staðreynd að írskar konur voru stór hluti landnámsmanna á Íslandi.

Þeir voru allir þrír mjög óánægðir að sjá magn ensku á skiltum hér á landi og stungu upp á því að fólk tæki upp á því að spreyja yfir enskuna með málningarbrúsum. Það geri málverndarsinnar í heimalandi þeirra. Þeir voru þó glaðir að heyra að íslenska væri enn mál samskipta Íslendinga á milli.

Það liggur þó meira á bakvið þessa uppástungu en það að þeir hafi gaman af smávægum skemmdarverkum. Írska, íslenska og öll litlu tungumál heimsins eru þeim hjartans mál.

„Á 8. áratugnum voru engir skólar þar sem kennt var á írsku. Þaðan sem við erum á Norður-Írlandi voru engir þannig skólar. Írskumálshreyfingin er ung þar, þannig foreldrar okkar fengu aldrei tækifæri til að læra írsku,“ sagði Móglaí Bap.

„Við vorum fyrsta kynslóðin til að ganga í skóla þar sem mál kennslu var írska og sú fyrsta til að verða málhafar. Ég el dóttur mína upp alfarið á írsku,“ bætti DJ Próvaí við.

Mo Chara á Gauknum.Cat Gundry Beck

Sækja innblástur til Baskalands

„Að endurnýja notkun málsins veitir okkur mikla samfélagskennd. Á Írlandi hefur enska ekki verið töluð nema síðan 1847. Fyrir hungursneyðina töluðu flestir Írar írsku. Enska hefur ekki verið aðalmál landsins nema í einhver 150 ár. Það er ekki langur tími. Við höfum verið að tala írsku í meira en tvö þúsund ár,“ sagði Móglaí Bap síðan.

Hann vitnar þar í hallærið mikla sem var tímabil mikillar hungursneyðar, sjúkdóma og fólksflótta á Írlandi árið 1847. Það olli því að íbúum Írlands fækkaði um 20 til 25 prósent.

Þeir segjast fá mikinn innblástur frá hreyfingum til að vernda minnihlutamál um alla Evrópu og hrósuðu Böskum sérstaklega fyrir að hafa náð að halda sínu máli lifandi og virku. Þrátt fyrir stöðuga kúgun þjóðarinnar undir einræðisherranum Franco.

Írskt mál og hipphopp hefðu áður ekki þótt eiga mikla samleið. Hér sést hinn grímuklæddi DJ Próvaí þeyta ímynduðum skífum.Cat Gundry Beck

„Æskulýðsstarfið í Baskalandi er mjög öflugt og við fáum mikinn innblástur þaðan. Sérstaklega frá tónlistinni sem þau gera á basknesku. Þau eru með ska-tónlist þarna á basknesku og pönk og rapp,“ sagði Móglaí Bap og hvatti lesendur eindregið til að kynna sér baskneska ska-tónlist.

„BTS og Rosalía syngja fyrir troðfullan Wembley en þar kann enginn kóresku. Fólk elskar bara tónlistina. Við spiluðum í San Francisco og þar var ung kona um tvítugt við sviðið sem kunni hvert einasta orð við öll lögin okkar. Án þess að tala stakt orð af írsku,“ bætti Móglaí við. BTS er kóresk popphljómsveit sem hefur slegið í gegn um allan heim þrátt fyrir að syngja yfirleitt á kóresku og Rosalía syngur sömuleiðis á spænsku.

Lentu í útistöðum við dómsmálaráðherra

Tríóið vakti mikla athygli á síðasta ári þegar það lét gera vegglistaverk í heimahverfi sínu í Vestur-Belfast sem sýnir brennandi lögreglubíl með skilaboðunum: „Níl fáilte roimh an RUC,“ sem mætti þýða yfir á íslensku sem „Konunglega Ulstersveitin er ekki velkomin.“ Konunglega Ulstersveitin, eða Royal Ulster Constabulary, var lögreglusveitin í Belfast og Norður-Írlandi þar til ársins 2007 og spilaði lykilrullu í átökunum í Norður-Írlandi sem setti mark sitt á líf Norður-Íra stóran hluta 20. aldar.

Sveitin hefur lent í útistöðum við ráðherra fyrir að endurnýta slagorð og slangur Írska lýðveldishersins í textum sínum. Það hefur ekki fallið vel í kramið hjá íhaldsmönnum þar í landi. Naomi Long, fyrrverandi dómsmálaráðherra Norður-Írlands, þótti ekki mikið til þeirra félaga koma og brást illa við afhjúpun veggmyndar hópsins í heimahverfi þeirra í Belfast.

Hún sakaði tríóið meðal annars um að öfgavæða börn og skaða árangur í samheldni norður-írsks samfélags sem nást hefur síðan átökunum lauk formlega árið 1998 með undirritun Sáttmála föstudagsins langa.

„Fólkið er allt sem við kærum okkur um“

Meðlimir sveitarinnar hafa þó neitað að láta aðra segja sér hverju þeir eiga að trúa. Móglaí Bap hefur áður sagt í viðtali að Írski lýðveldisherinn væri líklega ekki mikill vinur Kneecap meðal annars vegna vitnana þeirra í eiturlyfjaneyslu. Eitthvað sem Kneecap-mönnum er einstaklega hugleikið en Lýðveldisherinn og aðrir slíkir hópar eru gríðarlega andvígir.

Mo Chara tryllir lýðinn á Gauknum.Vísir/Rafn Ágúst

Kneecap segjast þó vera uppteknari af  vandamálum nútímans en gömlum ríg. Þeir segja að tónlistin þeirra höfði til fólks báðum megin við aðskilnaðarveggi Belfastborgar. „Það sem er mikilvægt er að berjast gegn áhrifum samdráttar á hinar vinnandi stéttir,“ sagði Móglaí Bap í viðtali við BBC.

„Fólk báðum megin þjáist undir ríkisstjórn Íhaldsflokksins. Við getum talað um tákn og myndir í allan dag en við heimsækjum hvora hliðina fyrir sig þá er það allt sem þau kæra sig um. Það er gamla fólkið, unga fólkið, fatlaðir, og það er allt sem við kærum okkur um.“  

Ýmislegt í bígerð

Þeir Móglaí Bap, Mo Chara og DJ Próvaí kippa sér þó ekki mikið upp við reiði ráðamanna í þeirra garð. Þeir hafa meiri áhuga á tónlistinni, verndun írska málsins frá útdauða og íslenska bjórnum Gull sem þeir hafa lært að kunna vel að meta. Þar að auki er ný plata á leiðinni og meira að segja bíómynd í bígerð.

Pólitískur boðskapur sveitarinnar hefur heillað marga í heimalandi þeirra.Cat Gundry Beck

„Það hafði samband við okkur Englendingur sem vildi græða pening á okkur og við vildum líka græða pening,“ sagði Móglaí Bap. „Þetta er svona symbíótískt samband,“ skaut DJ Próvaí inn og hló.

„Þetta er ekki ævisöguleg mynd heldur meira eins og leiktúlkun á ævi okkar. Þetta er sagan af Kneecap,“ sagði Móglaí Bap og bætti við að hún kæmi í bíómyndahús næsta sumar. Hann spurði blaðamann svo hvort við værum ekki örugglega með bíómyndahús á Íslandi.

Málið enn í útrýmingarhættu

Írska sem er stundum kölluð gelíska á íslensku, er keltnesk mál sem talað er af 40 til 80 þúsund manns að móðurmáli. Þetta er gríðarlega lágt hlutfall írsku þjóðarinnar sem telur um 6 milljón manns í dag. Þessa bágu stöðu þjóðarmálsins á Írlandi má rekja til aldalangrar nýlendunar og kúgunnar Breta yfir 800 ára skeið.

Síðustu ár hafa þó falið í sér mark um endurvakningu írskunnar þar sem ungir Írar í þéttbýlum eins og Dyflinni og Belfast eru byrjaðir að finna samsemd og nýja þjóðarímynd í þessu máli sem þeir voru við það að glata. Útgáfa tónlistar, kvikmynda og bókmennta á írsku hefur aukist á síðustu árum þó er staðan langt frá því að vera góð og tungumálið er enn talið vera í útrýmingarhættu.

Móglaí Bap svalar þorstanum enda mikið dansað.Cat Gundry Beck

„Við ólumst upp með ensku gegn vilja okkar. Við lærðum ekki írsku fyrr en í skólanum,“ sagði Mo Chara. 

„Málið er þjóðarímyndin, það er samfélagskenndin. Við höfum ekki talað ensku nema í 150 ár, írsku í meira en tvö þúsund. Málið er tenging við söguna okkar, það er tenging við staðinn sem við komum frá, við sögurnar okkar. Það er tenging við landið, lögin og menninguna sem við höfum verið að tapa hægt og rólega yfir öll þessi ár af landnámi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×