Lífið

Festi magnað samstuð við hval á filmu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hvalurinn stökk úr sjónum og beint á Breen, sem dróst niður með honum á allt að tíu metra dýpi.
Hvalurinn stökk úr sjónum og beint á Breen, sem dróst niður með honum á allt að tíu metra dýpi.

Maður komst í hann krappan undan ströndum Ástralíu í morgun þegar hann lenti undir hnúfubak. Hinn 55 ára gamli Jason Breen var á svokölluðu vængbretti þegar ungur hnúfubakur stökk upp úr sjónum og beint á hann.

Breen fangaði atvikið á GoPro myndavél sem hann var með á sér en það var einnig fangað úr landi, fyrir algera tilviljun.

Hann verður þó að teljast heppinn með að hafa sloppið frá atvikinu óskaddaður, þar sem hann var með band úr öklanum á sér í brettið og það festist á hvalnum.

Við það dróst Breen undir yfirborðið en bandið slitnaði þó. Í viðtali við 9News í Ástralíu sagðist Breen hafa verið dreginn á allt að tíu metra dýpi.

„Ég hélt að þessu væri lokið,“ sagði Breen.

Hann segist telja að tiltölulega smá stærð hvalsins hafi bjargað sér frá meiri meiðslum. Hann telur að ef hvalurinn hefði ekki verið svo ungur, þá hefði hann verið þakinn hrúðurkörlum. Ef svo hefði verið, telur Breen að hann hefði skorist illa, þar sem hann dróst með síðu hvalsins og slóst utan í hann.

Hrúðurkarlar eru krabbadýr sem festa sig á botn skipa og utan á hvali, svo eitthvað sé nefnt, þar sem þau mynda kalkskeljar sem geta verið mjög beittar.

Blaðamaður 9News ræddi einnig við mann sem tók myndband af atvikinu frá landi. Sá sagði algjöra tilviljun að hann hefði fangað það þegar hvalurinn stökk á Breen.

Bæði myndböndin má sjá í spilaranum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×