Killers of the Flower Moon: Samhygð óskast Heiðar Sumarliðason skrifar 31. október 2023 07:02 Killers of the Flower Moon Nú hafa kvikmyndahús hafið sýningar á Killers of the Flower Moon, 27. leiknu kvikmynd eins besta leikstjóra kvikmyndasögunnar, Martin Scorsese. Hann er nú orðinn áttræður og því spurning hversu mörg verk hans verða til viðbótar. Þetta er fyrsta myndin hans í fjögur ár, en síðast gerði hann hina þunglamalegu og langdregnu The Irishman. Jú, jú, The Irishman á sér aðdáendur þarna úti, en hún á sér líka „haters“ og er ég einn þeirra. Its What It Is Oh Well GIFfrom Its What It Is GIFs Kannski er það sú staðreynd að hún er Netflix-mynd og ég sá hana í sjónvarpinu heima sem hafði þau áhrif að mér leiddist áhorfið ógurlega. Ég hef velt fyrir mér hvort hún hefði notið sín betur í bíósal og ákvað því að horfa alls ekki á Killers of the Flower Moon uppi í rúmi með tölvuna í kjöltunni, heldur gera mér ferð í bíó með ofsaltað bíópopp í kjöltunni. Killers of the Flower Moon byggir á sannsögulegum atburðum sem fjallað var um í bók David Grann, Killers of the Flower Moon: The Osage Murders and the Birth of the FBI. Kápa bókarinnar. Hún fjallar um innfædda á verndarsvæði frumbyggja í Osage-sýslu í Oklahoma, hrjóstrugu landrými þar sem árið 1897 fundust gríðarlegar olíulindir. Fundurinn varð til þess að áður fátækir íbúar svæðisins fóru að synda í peningum. Dollaramerkin voru ekki lengi að birtast í augum hvítra manna, sem hópuðust á svæðið til að sækja brauðmola og jafnvel heilu hleifana. Á endanum var fjárræði tekið af innfæddum og fært á hendur hvítra lögfræðinga. Ýmsir menn hugsuðu sér gott til glóðarinnar og tóku upp á því að giftast innfæddum konum til að komast á endanum yfir féð. Þeir svifust einskis og var fólk myrt í hrönnum svo arfurinn færðist á „réttar“ hendur. Annað sjónarhorn valið Bókin sem myndin byggir á skoðaði atburðina mestmegnis frá sjónarhorni rannsakenda hinnar nýstofnuðu Bureau of Investigation - sem síðar varð FBI. Eftir að hafa klárað uppkast að handritinu sem mikil ánægja var með, ákváðu Scorsese og félagar öllum að óvörum að færa sjónarhornið af rannsóknarlögreglumönnunum. Sjálfsagt héldu flestir að það yrði þá fært á fórnarlömbin en svo var þó ekki. Fókusinn var færður á Ernest Burkhart (Leonardo DiCaprio) og William Hale (Robert De Niro), tvo megingerendur havarísins. DiCaprio og fyrirmyndin, Ernest Burkhart. Ég átti í mestu erfiðleikum með að átta mig á hvað gæti legið að baki ákvörðuninni um breytt sjónarhorn en eftir smá gúgl rakst ég á áhugaverða frétt. Hún fjallaði um ítarleg endurskrif handritsins vegna krafna stjörnunnar, DiCarprio. Kjarni málsins er að Leo vildi fókus sögunnar færðan af aðalpersónu bókarinnar, rannsóknarlögreglumanninum Tom White, yfir á fyrrnefndan Burkhart. Því átti sér stað algjör kúvending á handritinu sem varð til þess að Paramount Pictures drógu sig út úr verkefninu og Apple TV+ tók yfir fjármögnunina. Hvers vegna drógu Paramount sig út? Jú, þeir voru vissir um að sú kvikmynd sem DiCaprio vildi gera myndi ekki njóta jafn mikillar velgengni og sú sem upprunalega stóð til að framleiða. Þeir sögðust ekki einu sinni þurfa að sjá nýtt handrit, svo vissir voru þeir í sinni sök. Þjáning hins mannlega hjarta Þrátt fyrir að vera þrjár og hálf klukkustund að lengd er Killers of the Flower Moon ávallt áhugaverð og leiddist mér aldrei, enda umfjöllunarefnið áhugavert, leikararnir frábærir og vald leikstjórans á kvikmyndaforminu án hliðstæðu. Það var samt eitthvað sem vantaði. Þó svo myndin virðist á yfirborðinu hafa öll þau element sem til þarf, snerti sagan mig ekki nægilega. Þegar vöngum er velt yfir því hvers vegna kvikmynd nær ekki nægilega góðum tökum á áhorfandanum er oftast best að skoða samhygðarsköpun. Samhygð er mikilvægasta byggingareind allra frásagna; að áhorfandi geti sett sig í spor persónu og upplifað með henni það sem hún upplifir líkt og þau séu eitt. David Howard, höfundur The Tools of Screenwriting, skrifaði í þeirri klassísku bók sinni, að samhygð skapaðist þegar við verðum vitni að þjáningu hins mannlega hjarta. Til að vel takist til er best að það gerist snemma í sögunni, helst í fyrsta leikþætti. Maður sem aðeins áhorfandi gæti elskað. Birtingarmynd þess er oft einhverskonar niðurlæging, auðmýking og óréttlæti sem aðalpersónan verður fyrir. Sérstaklega er þetta mikilvægt tól í sagnamennsku þegar persónan er ekki sérlega geðfelld. Þessu hefur Scorsese ótal sinnum beitt sjálfur. Þegar faðirinn lemur Henry Hill sundur og saman í Goodfellas og Travis Bickle auðmýktur oftar en einu sinni í Taxi Driver. Í samhengi hinnar „slæmu“ aðalpersónu er oft gott að umkringja hana enn verra fólki, enda er t.d. Henry Hill nokkuð almennilegur náungi við hlið Tommy DeVito, sem Joe Pesci túlkaði svo eftirminnilega í Goodfellas. Tommy er hin mesta skepna, og í samanburði er Henry algjör herramaður þrátt fyrir að vera glæpon. Hér má finna mjög áhugavert myndband frá Lessons From the Screenplay You Tube-rásinni um samhygð með andhetju út frá kvikmyndinni Nightcrawler, en henni hefur oft verið líkt við Taxi Driver: Svo má ekki gleyma að mikilvægasta eind samhygðarsköpunar er skilningur á persónunni, það er að segja; þó ég sé ekki endilega sammála, eða leggi blessun mína yfir gjörðir hennar, þá skil ég hegðun hennar út frá því samhengi sem búið er að gefa mér. Samhygð í sögum hefur því ekkert með það að gera hvort persóna sé „næs.“ Það getur m.a.s. reynst algjör eiturpilla. Það eru allt aðrar eindir sem koma við sögu í sköpun samhygðar. Samhygðarskortur? Til þess að hleðsla samhygðar eigi sér stað þarf að stinga henni í samband við aðalpersónuna. Í tilfelli Killers of the Flower Moon er það Ernest Burkhart (DiCaprio) sem á endanum hreppti hnossið, þetta er hans saga og hann uppfyllir öll einkenni aðalpersónu. Því er áhugavert að skoða hvernig hann er kynntur til sögunnar. Höfundar handritsins Scorsese, Eric Roth og David Grann beita í raun engum af þeim meðulum sem almennt eru notuð til að skapa samhygðarstreng milli aðalpersónu og áhorfanda. Ein aum tilraun er gerð til þess, þegar kemur fram að Ernest hafi slasast í stríðinu. Það er hins vegar ekkert unnið meira með þá staðreynd. Eftir það er hann meira og minna eins og hver annar drullusokkur og meiðslin virðast ekkert há honum. Var áður með þetta á hreinu Það er í raun merkilegt að Scorsese leyfi handritinu að skauta framhjá þessum grunneindum góðra skrifa. Það er ekki eins og hann átti sig ekki á hlutverki samhygðar í kvikmyndum, líkt og hann ræðir í nýlegu viðtali við GQ þar sem hann fer yfir feril sinn. Skjáskotið hér að neðan er úr þeim hluta sem hann talar um Taxi Driver og þá samhygð sem áhorfandinn upplifði með aðalpersónunni. Hann áttaði sig á mikilvægi samhygðar þá og virðist enn gera það, hvers vegna klúðrar hann þessu samt í Killers of the Flower Moon? Það er ekki eins og Scorsese skilji ekki mikilvægi samhygðar í kvikmyndaðri frásögn. E.t.v. hafði hann ekki jafn miklar áhyggjur af aðalpersónu Killers of the Flower Moon og af Travis. Eftir á að hyggja hefði hann mátt hugsa málið betur. Bak við öfgakenndar skoðanir var Travis Bickle í Taxi Driver í grunninn bara einmana og aumkunarvert grey, það hjálpaði til við samhygðarsköpun. Aðalpersónur Killers of the Flower Moon eru hins vegar gráðugir illa innrættir hvítir milli/yfirstéttar karlar. Ég hafði ekki örðu af samúð með aðalpersónunni Ernest fyrr en rétt undir lok myndar þegar hann upplifði óverðskuldaðan missi. Það var hins vegar of lítið, og of seint. Oft fá skrifstofublækurnar í Hollywood á baukinn fyrir lélegar ákvarðanir, en hér tel ég þær hafa hitt naglann beint á höfuðið. Sú útgáfa sem upprunalega var skrifuð verður sennilega seint talin sérlega djörf, á meðan sú sem við sitjum uppi með telst það sannarlega. Maður veltir þó fyrir sér hvort djörfung djörfungar vegna sé einhver dyggð. Allavega er ég viss um að önnur leið hefði verið vænlegri til árangurs en sú sem hér er farin. Niðurstaða: Killers of the Flower Moon er ávallt áhugaverð en nær þó ekki að skapa sérlega sterka taug milli áhorfenda og Ernest Burkhart (DiCaprio). Það er mikil þjáning hins mannlega hjarta tengd þessari sögu, en hún er hins vegar ekki hjá aðalpersónunni. Hér er á ferðinni miðlungs Scorsese-mynd, sem þýðir að hún er betri en það sem flestir aðrir kvikmyndagerðarmenn geta boðið upp á. Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Þetta er fyrsta myndin hans í fjögur ár, en síðast gerði hann hina þunglamalegu og langdregnu The Irishman. Jú, jú, The Irishman á sér aðdáendur þarna úti, en hún á sér líka „haters“ og er ég einn þeirra. Its What It Is Oh Well GIFfrom Its What It Is GIFs Kannski er það sú staðreynd að hún er Netflix-mynd og ég sá hana í sjónvarpinu heima sem hafði þau áhrif að mér leiddist áhorfið ógurlega. Ég hef velt fyrir mér hvort hún hefði notið sín betur í bíósal og ákvað því að horfa alls ekki á Killers of the Flower Moon uppi í rúmi með tölvuna í kjöltunni, heldur gera mér ferð í bíó með ofsaltað bíópopp í kjöltunni. Killers of the Flower Moon byggir á sannsögulegum atburðum sem fjallað var um í bók David Grann, Killers of the Flower Moon: The Osage Murders and the Birth of the FBI. Kápa bókarinnar. Hún fjallar um innfædda á verndarsvæði frumbyggja í Osage-sýslu í Oklahoma, hrjóstrugu landrými þar sem árið 1897 fundust gríðarlegar olíulindir. Fundurinn varð til þess að áður fátækir íbúar svæðisins fóru að synda í peningum. Dollaramerkin voru ekki lengi að birtast í augum hvítra manna, sem hópuðust á svæðið til að sækja brauðmola og jafnvel heilu hleifana. Á endanum var fjárræði tekið af innfæddum og fært á hendur hvítra lögfræðinga. Ýmsir menn hugsuðu sér gott til glóðarinnar og tóku upp á því að giftast innfæddum konum til að komast á endanum yfir féð. Þeir svifust einskis og var fólk myrt í hrönnum svo arfurinn færðist á „réttar“ hendur. Annað sjónarhorn valið Bókin sem myndin byggir á skoðaði atburðina mestmegnis frá sjónarhorni rannsakenda hinnar nýstofnuðu Bureau of Investigation - sem síðar varð FBI. Eftir að hafa klárað uppkast að handritinu sem mikil ánægja var með, ákváðu Scorsese og félagar öllum að óvörum að færa sjónarhornið af rannsóknarlögreglumönnunum. Sjálfsagt héldu flestir að það yrði þá fært á fórnarlömbin en svo var þó ekki. Fókusinn var færður á Ernest Burkhart (Leonardo DiCaprio) og William Hale (Robert De Niro), tvo megingerendur havarísins. DiCaprio og fyrirmyndin, Ernest Burkhart. Ég átti í mestu erfiðleikum með að átta mig á hvað gæti legið að baki ákvörðuninni um breytt sjónarhorn en eftir smá gúgl rakst ég á áhugaverða frétt. Hún fjallaði um ítarleg endurskrif handritsins vegna krafna stjörnunnar, DiCarprio. Kjarni málsins er að Leo vildi fókus sögunnar færðan af aðalpersónu bókarinnar, rannsóknarlögreglumanninum Tom White, yfir á fyrrnefndan Burkhart. Því átti sér stað algjör kúvending á handritinu sem varð til þess að Paramount Pictures drógu sig út úr verkefninu og Apple TV+ tók yfir fjármögnunina. Hvers vegna drógu Paramount sig út? Jú, þeir voru vissir um að sú kvikmynd sem DiCaprio vildi gera myndi ekki njóta jafn mikillar velgengni og sú sem upprunalega stóð til að framleiða. Þeir sögðust ekki einu sinni þurfa að sjá nýtt handrit, svo vissir voru þeir í sinni sök. Þjáning hins mannlega hjarta Þrátt fyrir að vera þrjár og hálf klukkustund að lengd er Killers of the Flower Moon ávallt áhugaverð og leiddist mér aldrei, enda umfjöllunarefnið áhugavert, leikararnir frábærir og vald leikstjórans á kvikmyndaforminu án hliðstæðu. Það var samt eitthvað sem vantaði. Þó svo myndin virðist á yfirborðinu hafa öll þau element sem til þarf, snerti sagan mig ekki nægilega. Þegar vöngum er velt yfir því hvers vegna kvikmynd nær ekki nægilega góðum tökum á áhorfandanum er oftast best að skoða samhygðarsköpun. Samhygð er mikilvægasta byggingareind allra frásagna; að áhorfandi geti sett sig í spor persónu og upplifað með henni það sem hún upplifir líkt og þau séu eitt. David Howard, höfundur The Tools of Screenwriting, skrifaði í þeirri klassísku bók sinni, að samhygð skapaðist þegar við verðum vitni að þjáningu hins mannlega hjarta. Til að vel takist til er best að það gerist snemma í sögunni, helst í fyrsta leikþætti. Maður sem aðeins áhorfandi gæti elskað. Birtingarmynd þess er oft einhverskonar niðurlæging, auðmýking og óréttlæti sem aðalpersónan verður fyrir. Sérstaklega er þetta mikilvægt tól í sagnamennsku þegar persónan er ekki sérlega geðfelld. Þessu hefur Scorsese ótal sinnum beitt sjálfur. Þegar faðirinn lemur Henry Hill sundur og saman í Goodfellas og Travis Bickle auðmýktur oftar en einu sinni í Taxi Driver. Í samhengi hinnar „slæmu“ aðalpersónu er oft gott að umkringja hana enn verra fólki, enda er t.d. Henry Hill nokkuð almennilegur náungi við hlið Tommy DeVito, sem Joe Pesci túlkaði svo eftirminnilega í Goodfellas. Tommy er hin mesta skepna, og í samanburði er Henry algjör herramaður þrátt fyrir að vera glæpon. Hér má finna mjög áhugavert myndband frá Lessons From the Screenplay You Tube-rásinni um samhygð með andhetju út frá kvikmyndinni Nightcrawler, en henni hefur oft verið líkt við Taxi Driver: Svo má ekki gleyma að mikilvægasta eind samhygðarsköpunar er skilningur á persónunni, það er að segja; þó ég sé ekki endilega sammála, eða leggi blessun mína yfir gjörðir hennar, þá skil ég hegðun hennar út frá því samhengi sem búið er að gefa mér. Samhygð í sögum hefur því ekkert með það að gera hvort persóna sé „næs.“ Það getur m.a.s. reynst algjör eiturpilla. Það eru allt aðrar eindir sem koma við sögu í sköpun samhygðar. Samhygðarskortur? Til þess að hleðsla samhygðar eigi sér stað þarf að stinga henni í samband við aðalpersónuna. Í tilfelli Killers of the Flower Moon er það Ernest Burkhart (DiCaprio) sem á endanum hreppti hnossið, þetta er hans saga og hann uppfyllir öll einkenni aðalpersónu. Því er áhugavert að skoða hvernig hann er kynntur til sögunnar. Höfundar handritsins Scorsese, Eric Roth og David Grann beita í raun engum af þeim meðulum sem almennt eru notuð til að skapa samhygðarstreng milli aðalpersónu og áhorfanda. Ein aum tilraun er gerð til þess, þegar kemur fram að Ernest hafi slasast í stríðinu. Það er hins vegar ekkert unnið meira með þá staðreynd. Eftir það er hann meira og minna eins og hver annar drullusokkur og meiðslin virðast ekkert há honum. Var áður með þetta á hreinu Það er í raun merkilegt að Scorsese leyfi handritinu að skauta framhjá þessum grunneindum góðra skrifa. Það er ekki eins og hann átti sig ekki á hlutverki samhygðar í kvikmyndum, líkt og hann ræðir í nýlegu viðtali við GQ þar sem hann fer yfir feril sinn. Skjáskotið hér að neðan er úr þeim hluta sem hann talar um Taxi Driver og þá samhygð sem áhorfandinn upplifði með aðalpersónunni. Hann áttaði sig á mikilvægi samhygðar þá og virðist enn gera það, hvers vegna klúðrar hann þessu samt í Killers of the Flower Moon? Það er ekki eins og Scorsese skilji ekki mikilvægi samhygðar í kvikmyndaðri frásögn. E.t.v. hafði hann ekki jafn miklar áhyggjur af aðalpersónu Killers of the Flower Moon og af Travis. Eftir á að hyggja hefði hann mátt hugsa málið betur. Bak við öfgakenndar skoðanir var Travis Bickle í Taxi Driver í grunninn bara einmana og aumkunarvert grey, það hjálpaði til við samhygðarsköpun. Aðalpersónur Killers of the Flower Moon eru hins vegar gráðugir illa innrættir hvítir milli/yfirstéttar karlar. Ég hafði ekki örðu af samúð með aðalpersónunni Ernest fyrr en rétt undir lok myndar þegar hann upplifði óverðskuldaðan missi. Það var hins vegar of lítið, og of seint. Oft fá skrifstofublækurnar í Hollywood á baukinn fyrir lélegar ákvarðanir, en hér tel ég þær hafa hitt naglann beint á höfuðið. Sú útgáfa sem upprunalega var skrifuð verður sennilega seint talin sérlega djörf, á meðan sú sem við sitjum uppi með telst það sannarlega. Maður veltir þó fyrir sér hvort djörfung djörfungar vegna sé einhver dyggð. Allavega er ég viss um að önnur leið hefði verið vænlegri til árangurs en sú sem hér er farin. Niðurstaða: Killers of the Flower Moon er ávallt áhugaverð en nær þó ekki að skapa sérlega sterka taug milli áhorfenda og Ernest Burkhart (DiCaprio). Það er mikil þjáning hins mannlega hjarta tengd þessari sögu, en hún er hins vegar ekki hjá aðalpersónunni. Hér er á ferðinni miðlungs Scorsese-mynd, sem þýðir að hún er betri en það sem flestir aðrir kvikmyndagerðarmenn geta boðið upp á.
Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira