Sport

Óttast að Rod­gers hafi slitið hásin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rodgers meiddist við þessa tæklingu.
Rodgers meiddist við þessa tæklingu. Michael Owens/Getty Images

Tímabil New York Jets í NFL-deildinni hófst með sigri á Buffalo Bills en leikstjórnandi liðsins, hinn þaulreyndi Aaron Rodgers, gæti verið frá út tímabilið. Þar sem Rodgers er orðinn 39 ára gamall gæti ferillinn verið búinn en óttast er að hann hafi slitið hásin.

Rodgers gekk í raðir Jets í sumar og var að spila sinn fyrsta leik þegar Jets mætti Bills í síðasta leik fyrstu leikviku NFL-deildarinnar. Snemma leiks meiddist hann illa á hásin og er talið næsta öruggt að hún sé slitin. Rodgers verður skoðaður frekar í dag, þriðjudag, og þá ætti það að koma endanlega í ljós.

Rodgers meiddist þegar tíu mínútur og 56 sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta. Hann var að reyna koma sér undan því að vera tæklaður þegar vinstri fótur hans virtist festast í grasinu og hann sneri upp á fótlegginn. Í vor meiddist Rodgers á sama fæti en þá var um kálfameiðsli að ræða.

Rodgers lá í dágóða stund áður en hann fékk aðstoð við að komast út af vellinum. Skömmu síðar hélt hann til búningsklefa og ljóst að um alvarleg meiðsli væri að ræða.

Zach Wilson, maðurinn sem Rodgers átti að leysa af hólmi, kom inn af bekknum og hjálpaði Jets að vinna sex stiga sigur, lokatölur 22-16.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×