Sport

Höfðingjarnir mögu­lega án eins síns besta manns þegar titil­vörnin hefst

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Travis Kelce í Ofurskálinni á síðustu leiktíð.
Travis Kelce í Ofurskálinni á síðustu leiktíð. Vísir/Getty Images

Travis Kelce, innherji NFL-meistara Kansas City Chiefs, gæti verið fjarverandi þegar liðið hefur leik á komandi tímabili.

Það styttist í að NFL-tímabilið 2023-24 fari af stað. Líkt og vanalega ríkir mikil spenna fyrir komandi leiktíð en Kansas City Chiefs eiga titil að verja. Þeirra helsta stjarna er Patrick Mahomes en hann er leikstjórnandi liðsins.

Hinn 33 ára gamli Travis Kelce er hins vegar litlu minni stjarna enda hetja í augum stuðningsfólks liðsins. Kelce gekk í raðir Chiefs árið 2013 og hefur verið þar allar götur síðan.

Kelce skoraði eitt snertimark í ótrúlegum 38-35 sigri Chiefs á Philadelphia Eagles í Ofurskálinni á síðustu leiktíð.

Það virðist þó sem aldurinn sé að ná í skottið á innherjanum en hann gæti verið fjarri góðu gamni þegar Chiefs mætir Detroit Lions í fyrsta leik tímabilsins á aðfaranótt föstudags.

Kelce spennti hnéð á sér um og of á æfingu í dag og gæti því verið frá keppni í einhvern tíma. Ekki kemur fram hversu lengi hann gæti verið frá en tæpt er að hann verði klár þegar Chiefs mætir Detroit.

Leikur Chiefs og Lions verður sýndur í beinni útsending á Stöð 2 Sport. Útsending hefst kl. 00.00 á föstudaginn kemur.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×