Lífið

Guð­mundur starfar sem hunda­gangari: „Til í að gera þetta að ævi­starfinu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur er atvinnuhundagangari.
Guðmundur er atvinnuhundagangari.

Guðmundur Ingi Halldórsson starfar sem atvinnuhundagangari, eitthvað sem þekkist meira erlendis.

Í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi hitti Sindri Sindrason Guðmund og fékk að fræðast um starfið, heyrði af því hverjir það eru sem biðja um þjónustuna og hvað hún kostar.

„Ég held ég sé nú ekki sá fyrsti sem geng um með annarra manna hunda hér á Íslandi en ég held ég sé sá fyrsti sem tek þessu svona alvarlega,“ segir Guðmundur og heldur áfram.

„Ég tek þessu svo alvarlega að ég er til í að gera þetta að ævistarfinu. Ég var áður leikskólakennari og svo var ég á Jómfrúnni að vinna, og er þar reyndar í fimmtíu prósent starfi sömuleiðis í dag.“

Gengur með allt að sex hunda í einu

Hann segist hafa gengið um hús þegar hann var yngri og beðið um að ganga með hunda.

„Ég er að vinna með að ganga með svona fjóra til sex hunda. Núna er ég búinn að vinna við þetta í einn mánuð og maður er að kynnast sínum skjólstæðingum og er að para þá saman,“ segir Guðmundur en hundarnir eru vissulega margir mjög ólíkar týpur.

Það kostar 3000 krónur að fá Guðmund til að ganga með hund í 30 mínútur, 5000 krónur kostar að fá klukkustundagöngu en síðan er hann með ákveðnar áskriftarleiðir. Hálftíma ganga alla virka daga í mánuði kostar viðskiptavini 40.000 krónur á mánuði og klukkustunda ganga alla virka daga 60.000 krónur.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×