Sport

Jökull Elísabetarson: Skiptir okkur engu hver staðan er

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Jökull Elísabetarson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Jökull Elísabetarson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Stjarnan vann í kvöld stórsigur á Fram í Bestu deildinni á Samsungvellinum 4-0 eftir að hafa leitt leikinn 1-0 í hálfleik. Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum afar ánægður með frammistöðuna.

Jökull sá þó einhver atriði sem honum fannst sitt lið geta gert betur.

„Mjög ánægður með margt í þessum leik. Kannski helst, við vorum mikið með boltann í fyrri hálfleik en mér fannst við geta haldið betur í hann. Mér fannst við stundum fara í ótímabærar langar sendingar kannski helst það en erfitt að setja út á margt í seinni hálfleiknum,“ sagði Jökull.

Stjarnan nýtti allar skiptingar sínar í leiknum og tók Jökull Eggert Aron Guðmundsson, markaskorara liðsins í fyrri hálfleik, út af í hálfleik. Einnig gerði hann tvær breytingar áður en annað mark leiksins leit dagsins ljós.

„Við erum með stóran hóp og skiptir okkur engu hver staðan er. Ég held við gerðum fyrstu skiptingarnar í 1-0 fyrir utan í hálfleik. Það eru allir búnir að leggja mikið á sig og það hafa allir djúpan skilning á hvað við erum að reyna að gera, þannig að það koma allir vel inn.“

Daníel Laxdal var ekki með Stjörnunni í kvöld þar sem hann var hvíldur. Aðspurður hvort ekki væri erfitt að koma sér inn í byrjunarliðið aftur eftir að liðið hefur átt svona frammistöðu svaraði Jökull því á þessa leið.

„Við höfum átt nokkra svona leiki á heimavelli kannski ekki alveg svona afgerandi á boltann en við sjáum bara til með það.“

Stjarnan eru nú taplausir í síðustu sjö heimaleikjum en eiga enn eftir að vinna leik á útivelli. Næstu þrír leikir Stjörnunnar eru á útivelli.

„Ég held að við leyfum ykkur (fjölmiðlar) að hafa áhyggjunnar yfir því. Við erum mjög brattir á framhaldið hvort sem það er á útivelli eða heimavelli og ég hef engar áhyggjur af því bara mjög spenntur,“ sagði Jökull að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×