Sport

Fær risasamning og verður launahæsti leikmaður deildarinnar miðað við laun á ári

Andri Már Eggertsson skrifar
Það verður gaman að fylgjast með Justin Herbert á komandi tímabili í NFL-deildinni
Það verður gaman að fylgjast með Justin Herbert á komandi tímabili í NFL-deildinni Vísir/Getty

Justin Herbert, leikstjórnandi Los Angeles Chargers, gerði fimm ára risasamning og verður launahæsti leikmaður NFL-deildarinnar miðað við laun á ári. Herbert verður hjá félaginu þar til tímabilið 2029 klárast.

Los Angeles Chargers valdi Herbert númer sex í nýliðavali NFL-deildarinnar árið 2020. Hann hefur leikið þrjú tímabil með félaginu og byrjaði strax fimmtán leiki á sínu fyrsta tímabili. Að tímabilinu loknu var Herbert valinn besti sóknarmaðurinn af nýliðunum.

Eftir að hafa leikið þrjú tímabil í NFL-deildinni með Los Angeles Chargers hefur félagið framlengt við Herbert og gert hann að launahæsta leikmanni NFL-deildarinnar miðað við laun á ári.

Samningurinn er virði 262.5 milljónir dollara á fimm árum. Það er margt áhugavert í samningi Herberts sem gerir hann verðmætan. Herbert er tryggður fyrir 218.7 milljónir dollara sem er næst hæsta í deildinni á eftir Deshaun Watsons sem er með 230 milljónir dollara tryggða.

Herbert tekur fram úr Lamar Jackson sem launahæsti leikmaður í sögu NFL miðað við meðaltal launa á ári. Herbert verður með 52.5 milljónir dollara á ári en Lamar verður með 52 milljónir dollara.

 

Herbert er þriðji leikstjórnandinn sem skrifar undir risasamning þetta undirbúningstímabilið. Áður hafði Jalen Hurts skrifað undir fimm ára samning við Philadelphia Eagles sem er virði 255 milljónir dollara og Lamar Jackson er búinn að skrifa undir fimm ára samning við Baltimore Ravens virði 260 milljónir dollara.

  

Joe Burrow, leikstjórnandi Cincinnati Bengals, á eftir að skrifa undir nýjan samning en hann er sagður vera að fá samning sem yrði ekki síðri en samningur Herberts. Þeir voru í sama nýliðavali og þar var Burrow valinn fyrstur.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×