Lífið

Tekur út refsinguna með sam­fé­lags­þjónustu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Pete Davidson fær að taka út refsinguna fyrir kærulausa aksturinn með samfélagsþjónustu.
Pete Davidson fær að taka út refsinguna fyrir kærulausa aksturinn með samfélagsþjónustu. Getty/Roy Rochlin

Grínistinn Pete Davidson klessti bíl á heimili í Beverly Hills í Kaliforníu í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Davidson var ákærður fyrir vítaverðan akstur en fær að taka út refsinguna með samfélagsþjónustu.

Talsmaður saksóknarans í Los Angeles segir í samtali við Page Six í gær að ef Davidson fari eftir ákveðnum skilyrðum muni brotið ekki fara á sakaskrá hjá honum. 

Hann þurfi að sinna fimmtíu klukkustundum af samfélagsþjónustu, fara í umferðarskóla í tólf klukkutíma. Einnig eigi hann að fá fræðslu á spítala eða í líkhúsi um mögulegar afleiðingar þess að aka með þessum hætti

„Sem betur fer meiddist enginn í þessum árekstri. Við vitum að vítaverður akstur getur haft skelfilegar afleiðingar,“ sagði talsmaður saksóknarans í Los Angeles í samtali við Page Six í júní.

Fram kemur að Davidson geti sinnt samfélagsþjónustunni hjá slökkviliðinu í New York. Faðir Davidson vann þar en hann lést við slökkvistörf eftir að farþegaþotum var flogið á tvíburaturnanna þann 11. september árið 2001.

Andlát föður Davidson var umfjöllunarefni kvikmyndarinnar The King of Staten Island sem kom út árið 2020. Davidson lék aðalhlutverkið og tók þátt í að skrifa handritið að kvikmyndinni en um er að ræða kvikmynd sem er afar lauslega byggð á lífi Davidson. Í myndinni var faðir aðalpersónunnar einnig slökkvimaður sem lést við slökkvistörf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×