Sport

Stjörnu­hlauparar NFL deildarinnar héldu saman Zoom fund um mót­mæla­að­gerðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Austin Ekeler skorar snertimark fyrir Los Angeles Chargers en hann er einn af þeim hlaupurum sem eru ósáttastir með stöðu mála í samningamálum leikstöðunnar í NFL.
Austin Ekeler skorar snertimark fyrir Los Angeles Chargers en hann er einn af þeim hlaupurum sem eru ósáttastir með stöðu mála í samningamálum leikstöðunnar í NFL. Getty/Michael Hickey

Hlaupurum NFL-deildarinnar þykir á sér brotið þegar kemur að fá góða samninga í deildinni og nú virðist þeir gætu mögulega gripið til aðgerða.

Hlauparastaðan er mjög mikilvæg í ameríska fótboltanum en bestu leikmennirnir eru samt ekki að fá eins góða samninga og bestu leikmennirnir í öðrum stöðum. Í sumar eru nokkrir leikmenn að bíða eftir stórum samningi og sumir hóta því að fara í verkfall.

Saquon Barkley hjá New York Giants og Josh Jacobs hjá Las Vegas Raiders áttu báðir frábært tímabil og þeir vilja stóran samning. Liðin festu þá hins vegar með svokölluðu „Franchise tag“. Það þýðir að þeir mega ekki fara inn á opinn markað þótt að samningurinn sé úti en þeir fá þó báðir tíu milljónir dollara fyrir næsta tímabil eða 1,3 milljarð króna.

Þetta er væn upphæð en þeir vilja hins vegar miklu meira og enn fremur miklu lengri samning.

Hlauparastaðan er ein sú hættulegasta í ameríska fótboltanum. Líkami leikmanna þarf að þola mikið og margt auk þess sem hlaupararnir meiðast oft mjög illa. Liðin eru líka þekkt fyrir það að níðast á hlaupurunum sínum og skipta þeim síðan strax út fyrir nýja og ferska fætur þegar þeir hætta að skila sínu eða glíma við langvinn meiðsli.

Stjörnuhlauparar NFL deildarinnar ákváðu því að hóa sig saman og halda Zoom fund þar sem þeir fóru yfir stöðu mála. Nick Chubb, aðalhlaupari Cleveland Browns, staðfesti að hann hefði tekið þátt í fundinum ásamt meðal annars Saquon Barkley, Derrick Henry og Christian McCaffrey.

Austin Ekeler hjá Los Angeles Chargers skipulagði fundinn en hann hefur verið duglegur að tjá sig um slæma stöðu hlaupara í deildinni hvað varðar að þeir fái ekki nógu vel borgað miðað við hvað þeir leggja til sinna liða.

Hlaupararnir eiga að hafa rætt hugmyndir um aðgerðir á fundinum en engin ákveðin plön eru í bígerð hjá þeim. Það hefur samt lekið út að leikmenn gætu ýkt meiðsli sín í stað þess að fórna öllu fyrir liðin sem vilja síðan ekki borga þeim almennilega.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×