Lífið

Dánarorsök Presley liggur fyrir

Máni Snær Þorláksson skrifar
Lisa Marie Presley lést þann 12. janúar síðastliðinn.
Lisa Marie Presley lést þann 12. janúar síðastliðinn. AP/Jordan Strauss

Lisa Marie Presley, söngkona og eina dóttir Elvis og Priscillu Presley, lést í janúar á þessu ári eftir að hafa verið flutt á sjúkrahús með hjartastopp. Dánarorsök hennar liggja nú fyrir en hún lést vegna fylgikvilla þyngdartapsaðgerðar.

Presley var einungis 54 ára gömul þegar hún lést. Viðbragðsaðilar fundu hana í hjartastoppi á heimili sínu í borginni Calabasas í Kaliforníu. 

Einungis tveir sólarhringar voru liðnir frá því að hún mætti ásamt móður sinni á Golden Globe verðlaunahátíðina. Þar hlaut leikarinn Austin Butler verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Elvis Presley í samnefndri kvikmynd.

Fram kemur í niðurstöðum skýrslu dánardómstjóra Los Angeles að stífla hafi verið í smáþörmum Presley. Stíflan hafi orsakast vegna samgrónings sem sé algengur fylgikvilli þyngdartapsaðgerðar. Presley er sögð hafa farið í slíka aðgerð fyrir nokkrum árum síðan.

„Þetta er þekktur langtíma fylgikvilli fyrir svona aðgerð,“ segir í skýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×