Umræðan

Að fá betra verð með því að bjóða betra verð

Baldur Thorlacius skrifar

Munurinn á hagstæðasta kauptilboði og hagstæðasta sölutilboði á hlutabréfamarkaði er kallað verðbil. Ef hæsta verð sem einhver er tilbúinn til að greiða fyrir hlut er 100 kr. og hæsta verð sem einhver er tilbúinn til að selja fyrir er 102 kr. er verðbilið 2 kr. (102 kr. – 100 kr.). Stundum er talað um þetta sem óbeinan viðskiptakostnað, vegna þess að ef einhver kaupir og selur innan dagsins tapar viðkomandi að öðru óbreyttu 2 kr. á hlut.

Algengt verðbil á íslenska markaðnum er í kringum 1,5%. Stundum er það þrengra og stundum víðara. Það er vissulega hægt að líta á verðbil sem óbeinan viðskiptakostnað, en það er samt gott að hafa í huga að kaup- og söluverð eru ekki „listaverð“. Það þarf ekki að taka þessum verðum heldur geta fjárfestar boðið betur og athugað hvort einhver bíti á agnið. Reyna að fá betra verð með því að bjóða betra verð. Þeim mun víðari sem verðbilið er þá stundina, þeim mun meiri tækifæri felast í að bjóða betur.

Ágæt regla sem almennir fjárfestar geta tileinkað sér er að nota ekki svokölluð markaðstilboð (e. market order) við kaup og sölu nema að vel ígrunduðu máli, þar sem þau fela í sér að viðkomandi tekur hagstæðasta tilboði – sama hvaða verð eru í boði. Markaðstilboð geta vissulega verið gagnleg, en vandasöm í félögum þar sem verðsveiflur eru miklar. Svokölluð verðtilboð (e. limit order) geta oft hentað betur, en þá skilgreina fjárfestar hæsta (lægsta) verð sem þeir eru tilbúnir til að kaupa (selja) á en geta samt verið vissir um að fá alltaf besta verð sem í boði er.

Þeim mun víðari sem verðbilið er þá stundina, þeim mun meiri tækifæri felast í að bjóða betur.

Það er engu að síður gott að taka fram að tilboðum er ekki alltaf tekið strax, þrátt fyrir að vera þau hagstæðustu sem eru í boði, og aðstæður geta breyst snögglega. Fjárfestar standa því frammi fyrir ákveðnu vali. Þeir geta gengið að verðbilinu með því að taka besta fyrirliggjandi tilboði og verið þannig nokkuð öruggir um að ná að kaupa eða selja strax og á því verði. Eða þeir geta reynt að ná enn betra verði, en tekið ákveðna áhættu á því að markaðurinn hreyfist áður en þeir ná að kaupa eða selja. 

Það er ekkert eitt rétt í þessu, frekar en öðru sem tengist fjárfestingum, en það er gott fyrir almenna fjárfesta að vera meðvitaða um möguleikann á því að fá betra verð með því að bjóða betra verð.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.




Umræðan

Sjá meira


×