Íslenski boltinn

Margrét Lára: Getum við tekið blóðprufu úr henni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Málfríður Erna Sigurðardóttir í baráttu við hina frábæru Öglu Maríu Albertsdóttur í bikarleiknum um síðustu helgi.
Málfríður Erna Sigurðardóttir í baráttu við hina frábæru Öglu Maríu Albertsdóttur í bikarleiknum um síðustu helgi. Vísir/Anton Brink

Stjörnukonur hvíldu lykilmenn í leiknum á móti ÍBV eftir að hafa nokkrum dögum áður spilað mjög krefjandi bikarleik á móti Breiðabliki sem fór alla leið í framlengingu og vítakeppni.

Elsti útileikmaður liðsins, Málfríður Erna Sigurðardóttir, þurfti hins vegar enga hvíld og sérfræðingur Bestu deildarinnar vildi vekja athygli á spilamínútum hennar í Bestu mörkunum í gærkvöldi.

„Hvað finnst ykkur um það að það er ein 39 ára sem spilaði allan þennan leik á slæmum grasvelli, eða ekki besta grasvelli í heimi, og spilaði 120 mínútur nokkrum dögum áður. Málfríður Erna. Úr hverju er hún, spurði Margrét Lára Viðarsdóttur í Bestu mörkunum í gær.

„Getum við tekið blóðprufu úr henni og kannað þetta mál eitthvað,“ sagði Margrét Lára í léttum tón.

„Er hún 39 ára,“ skaut Helena Ólafsdóttir inni í.

„Svo er það það. Er hún 39 ára? Það er bara stóra leyndarmálið,“ sagði Margrét.

„Þetta er í rauninni ótrúlegt,“ sagði Helena.

„Þetta er bara magnað. Ég veit að hún er að spila miðvörð og kannski ekki þessi dæmigerða hlaupastaða eins og að vera miðjumaður. Þú þarft að spila leikinn og þú þarft að staðsetja þig. Þú ert að spila á móti sprækum leikmönnum,“ sagði Margrét.

„Hún var að spila á móti Breiðablik sem er á toppi deildarinnar fyrir nokkrum dögum síðan og ekki bara níutíu mínútur. Þú sérð það ekki á henni. Ég vil hrósa henni,“ sagði Margrét.

„Ég vil bara fá viðtal við hana, sjá hvað hún er að gera og hvernig hún hugsar um sig,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir.

„Mér finnst þetta vera rannsóknarefni,“ sagði Helena og Margrét Lára kom með góða hugmynd að umfjöllun:

„Dagur í lífi Málfríðar Ernu,“ sagði Margrét.

„Við erum komin með nýjan dagskrárlið í þáttinn en við sjáum til hvort við náum því eða hvort að Málfríður samþykki það,“ sagði Helena en það má sjá þær ræða ofurkonuna hér fyrir neðan.

Klippa: Bestu mörkin: Úr hverju er Málfríður Erna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×