Í tilkynningu til Kauphallarinnar vísar stjórn Kviku til „atburða síðustu daga“ fyrir ákvörðun sinni um að slíta viðræðunum, sem eru sagðar hafa verið góðar fram til þessa, og að fyrirséð er að boðað verði til hluthafafundar hjá Íslandsbanka og mögulega stjórnarkjörs.
„Þó er ljóst að ávinningur af samruna félaganna gæti orðið verulegur og hefur stjórn Kviku lýst yfir vilja sínum til þess að hefja viðræður að nýju ef forsendur skapast,“ segir í tilkynningunni.
Fyrr í vikunni var greint frá starfslokum Birnu Einarsdóttur sem bankastjóra Íslandsbanka eftir að bankinn braut fjölmörg lög og innri reglur félagsins við sölu á hlutum í sjálfum í útboði ríkisins í fyrra. Samhliða því var Jón Guðni Ómarsson ráðinn í hennar stað sem bankastjóri en hann hefur verið framkvæmdastjóri fjármála bankans samfellt frá árinu 2011.
Bankasýslan, sem heldur utan um 42,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka, hefur farið fram á að haldinn verði hluthafafundur og er áætlað hann verði í lok næsta mánaðar. Líklegt er að talið að þar muni fara fram stjórnarkjör en margir lífeyrissjóðir, sem eru stórir hluthafar í félaginu, hafa meðal annars kallað eftir því að kjörið verði að nýju í stjórn bankans.
Tæplega fimm mánuðir eru liðnir síðan stjórn Kviku óskaði eftir því að hefja viðræður um samruna við Íslandsbanka. Um miðjan febrúar féllst stjórn Íslandsbanka á þær viðræður og hafa þær staðið yfir síðan þar sem félögin hafa ásamt erlendum og innlendum ráðgjöfum sínum unnið að því að meta mögulega samlegð af samruna og stöðu sameinaðs félags á markaði. Til stóð að birta niðurstöður þeirrar vinnu í þessari viku en ekkert verður af því eins og sakir standa.
Samanlagt markaðsvirði félaganna um þessar mundir, sem hefur lækkað nokkuð frá því að tilkynnt var fyrst um samrunaviðræðurnar í byrjun febrúar, er um 300 milljarðar króna. Eignarhlutur ríkisins í sameinuðu félagi hefði að óbreyttu orðið ríflega 30 prósent.
Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s tilkynnti fyrr á árinu um að það hefði formlega tekið til skoðunar að hækka lánshæfismat Kviku í kjölfar þess að ákveðið hefði verið að hefja viðræður um samruna við Íslandsbanka. Eins og Innherji hafði áður sagt frá því þá taldi Moodys að sameining myndi hafa jákvæð áhrif á lánshæfi beggja fyrirtækjanna. Kvika myndi verða hluti af mun stærri bankaeiningu, sem ætti að draga meðal annars úr rekstraráhættu, og fyrir Íslandsbanka yrði það til þess fallið að breikka enn frekar tekjustrauma bankans.
Innherji greindi frá því í lok marsmánaðar að Íslandsbanki hefði fengið LOGOS, stærstu lögmannsstofu landsins, og Mörkina sem lögfræðilega ráðgjafa bankans í samrunaviðræðunum. Þá var alþjóðlegi bankinn Barclays ráðinn sem leiðandi fjármálaráðgjafi en hann hefur á síðustu árum komið að ýmsum ráðgjafaverkefnum fyrir Íslandsbanka, meðal annars við frumútboð og skráningu bankans í Kauphöllina sumarið 2021.
Kvika banki fékk hins vegar til liðs við sig lögmannsstofuna BBA//Fjeldco sem lögfræðilegan ráðgjafa í tengslum við samrunaferlið. Þá er fjármálaráðgjafi Kviku bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley, en hann var meðal annars helsti ráðgjafi Kaupþings við skráningu og sölu á hlutum félagsins í Arion banka á árunum 2018 og 2019.
Morgan Stanley fékk í kjölfarið síðan íslensku lögmannsstofuna LEX til að vera sér til aðstoðar í viðræðunum.