Íslenski boltinn

Sá markahæsti í Bestu deildinni fékk verðlaun úti í Banda­ríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Ingi Sigurðarson hefur skorað sex mörk í fyrstu fimm leikjum sínum í Bestu deildinni í sumar.
Stefán Ingi Sigurðarson hefur skorað sex mörk í fyrstu fimm leikjum sínum í Bestu deildinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Blikinn Stefán Ingi Sigurðarson hefur skorað sex mörk í fyrstu fimm umferðum Bestu deildar karla í fótbolta og var markahæsti leikmaður fyrstu fimm umferða deildarinnar.

Hann er að raða inn mörkum þessa dagana hér heima á Íslandi en hann er á sama tíma að vinna til verðlauna hinum megin við Atlantshafið.

Stefán Ingi kom heim í Breiðablik með bullandi sjálfstraust eftir frábært lokaár með Boston College í bandaríska háskólaboltanum.

Stefán Ingi fékk verðlaun um helgina þegar hann var valinn Karlörn ársins en verðlaunin heita „Male Eagle of the Year Award“ úti í Bandaríkjunum. Stefán Ingi var sá karl sem var framúrskarandi íþróttamaður skólaársins en hjá konunum fékk verðlaunin frjálsíþróttakonan Katherine Mitchell.

Það er margt sem telur þegar þessi verðlaun eru veitt og ekki aðeins frammistaðan með íþróttaliði skólans. Viðkomandi þarf að hafa unnið sér inn frammistöðuverðlaun, hafa sýnt leiðtogahæfileika, verið hjálpsamur við liðsfélaga, tekið þátt í vinnu í þágu samfélagsins og þá telur einnig góður námsárangur þegar valið er á milli nemanda Boston College skólans.

Íþróttafólk Boston College skólans hafa viðurnefnið Ernirnir og er heiti verðlaunanna komið þaðan.

Boston College skólinn sagði frá verðlaunum á miðlum sínum og fór þar lofsamlegum orðum um íslenska framherjann.

Stefán Ingi var einn af bestu sóknarmönnum Atlantic Coast deildarinnar á árinu 2022 og var valinn í annað úrvalslið ársins. Hann skoraði alls tólf mörk á tímabilinu og fékk alls 25 markastig sem var það besta á hákólaferli hans.

Stefán Ingi varð sá fimmti markahæsti í bandaríska háskólaboltanum og í tíunda sæti í markastigum. Hann var markahæstur í Atlantic Coast deildinni og sá þriðji stigahæsti. Alls skoraði hann 28 mörk á ferli sínum í skólanum.

Stefán komst þrisvar í náms-úrvalslið vikunnar í deildinni og safnaði pening fyrir brjóstakrabbameinsdeild Newton Wellesley sjúkrahússins. Stefán útskrifast í desember með aðaláherslu á fjármálastjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×