Íslenski boltinn

Býst við dýr­vit­lausum KR-ingum í kvöld

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals  

Sann­kallaður stór­leikur er á dag­skrá Bestu deildar karla í knatt­spyrnu í kvöld þegar að Valur og KR mætast á Origovellinum að Hlíðar­enda. 

Vals­menn hafa farið afar vel af stað í deildinni í ár og þjálfari liðsins, Arnar Grétars­son, segir sína menn ætla að sækja stigin þrjú í kvöld.

„Þetta leggst mjög vel í mig, eins og er raunin með alla leiki sem maður fer í. Þetta er ná­granna­slagur og maður hefur fundið það, í þennan stutta tíma sem ég hef verið í starfi hjá Val, að þetta er stór leikur fyrir stuðnings­menn beggja liða. Leik­menn eru með­vitaðir um það,“ sagði Arnar í sam­tali við Val Pál Ei­ríks­son, í­þrótta­frétta­mann, fyrr í dag.

Vals­menn sitja í 2.sæti Bestu deildarinnar fyrir leik kvöldsins og hafa unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum í deildinni. KR hefur aftur á móti verið í brasi og er sem stendur í 9.sæti með fjögur stig.

„Mínir menn vita að KR hefur verið að spila mun betur heldur en þau stig sem liðið er með. Ég á því von á hörku leik. KR-ingarnir munu mæta dýr­vit­lausir til leiks. Það er oft þunn lína á milli þess að vinna og tapa leikjum.

Það sem hefur kannski vantað upp á hjá KR að undan­förnu er að nýta færin, þeir hafa ekki gert það og vonandi verður ekki breyting á því í kvöld. Við ætlum okkur að sækja þessi þrjú stig, það er alveg klárt.“

Vals­menn eru þremur stigum á eftir topp­liði Víkings Reykja­víkur og vill Arnar halda pressunni á þeim.

„Við viljum halda á­fram að elta Víkingana uppi og vitum að við þurfum að eiga topp leik til þess að sækja þessi þrjú stig í kvöld.

Við erum búnir að spila heilt yfir mjög vel í þessum fimm leikjum til þessa. Það eina sem við erum ó­sáttir með eru úr­slitin úr leiknum gegn Breiða­blik en leikurinn og frammi­staðan í þeim leik var mjög góð.“

Að sögn Arnars hefur verið svo­lítið bras á leik­manna­hópi Vals varðandi meiðsli en það horfir nú allt til betri vegar.

„Við erum á réttri leið þar, erum að fá menn til baka. Ég sagði það fyrir mót að ef við kæmumst í gegnum fyrstu sex til níu um­ferðirnar með því að geta verið til­tölu­lega ofar­lega í töflunni þá yrði ég bjart­sýnn fyrir tíma­bilinu vegna þess að raðirnar eiga eftir að þéttast hjá okkur. Við verðum bara sterkari eftir því sem á líður. “

Leikur Vals og KR hefst klukkan 19:15 í kvöld. Bein út­sending frá Origovellinum hefst klukkan 19:00 á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×