Tónlist

Aflýsa tónleikum Bjarkar í sumar

Samúel Karl Ólason skrifar
Björk á Cochella í Bandaríkjunum í síðasta mánuði.
Björk á Cochella í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Getty/Santiago Felipe

Búið er að aflýsa Cornucopia tónleikum Bjarkar sem áttu að fara fram í Reykjavík í júní. Er það gert vegna vandamála við framleiðslu tónleikanna sem ekki tókst að leysa, samkvæmt tilkynningu.

„Við áttum okkur á því að þetta mun valda miðahöfum vonbrigðum og biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ segir í tilkynningunni.

Um er að ræða þrjá tónleika sem áttu að fara fram 7., 10. og 13. júní. Þeir sem voru búnir að kaupa miða munu fá þá endurgreidda.

Björk hélt síðast tónleika hér á landi í október og í nóvember.

Í tilkynningunni sem er frá umboðsskrifstofu Bjarkar segir að leitað verði allra ráða til að tryggja að vandamál eins og þau sem komu upp nú, komi ekki upp aftur.

„Við vonumst enn til að geta fundið leið til að láta tónleikana verða að veruleika á næsta ári. En þar sem það gæti tekið einhverjar vikur eða mánuði að leysa öll tækni- og skipulagsmál, erum við tilneydd á þessum tímapunkti til að aflýsa og endurgreiða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.