Lífið

Warwick Davis á leið til Ís­lands í frí

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Warwick var afar hress þegar hann hitti íslenska hópinn og spenntur fyrir Íslandsförinni í þessum mánuði.
Warwick var afar hress þegar hann hitti íslenska hópinn og spenntur fyrir Íslandsförinni í þessum mánuði. Marteinn Ibsen

Breski stór­leikarinn Warwick Davis er á leið til Ís­lands í frí í þessum mánuði. Þetta sagði hann ís­lenskum að­dá­endum sem mættu á sér­staka Stjörnu­stríðs­ráð­stefnu í London um páskana.

Þeirra á meðal er Marteinn Ibsen, stjórnar­maður í Ís­lands­deild 501st Legion, Icelandic Out­post. Sam­tökin eru fyrir löngu orðin flestum kunn en með­limir þeirra klæða sig upp í Stjörnu­stríðs­búninga, gleðja þannig al­menning og styrkja hin ýmsu góð­gerðar­mál.

„Við vorum þarna á Star Wars Celebration í London í al­gjöru Dis­n­ey partýi. Það eru ein­hverjir tugir þúsunda að­dá­enda sem mæta þangað og við rákumst bara á Warwick þarna í hurðinni,“ út­skýrir Marteinn í sam­tali við Vísi. Sjálfur bregður hann gjarnan á leik í búningi Svart­höfða.

Warwick er einn af frægustu leikurum Bret­lands­eyja og hefur komið fram í Stjörnu­stríðs­myndunum, Harry Potter myndunum og Will­ow myndinni og sjón­varps­þáttunum svo fátt eitt sé nefnt.

Marteinn segir að um hafi verið að ræða sann­kallaða Stjörnu­stríðs­há­tíð í London þar sem stærstu stjörnurnar mættu úr myndunum mættu. For­svars­menn kvik­mynda­versins Lucas­film til­kynntu þar sömu­leiðis ýmsar sjón­varpsseríur og kvik­myndir sem eru í bí­gerð og tengjast Stjörnu­stríðs­heiminum.

„Svo voru sýnd brot úr alls­konar verk­efnum sem enginn annar má sjá,“ segir Marteinn og fellst á það hlæjandi að hann sitji því á nokkrum hernaðar­leyndar­málum Dis­n­ey sam­steypunnar sem á Lucas­film.

Horfðu á Manda­l­orian með Manda­l­orian teyminu

Meðal þess sem ráð­stefnu­gestir fengu að sjá var nýjasti þátturinn í sjón­varps­þátta­seríunni The Manda­l­orian. Marteinn segist hafa áttað sig á því að sýningu lokinni að teymið sem gerir þættina var einnig við­statt sýninguna.

Íslenski hópurinn komst að ýmsum hernaðarleyndarmálum um nýtt efni úr Star Wars heiminum á ráðstefnunni. Marteinn Ibsen

„Þarna voru Jon Favreu, Dave Filoni og allir leikararnir úr þáttunum. Við tókum ekki eftir því fyrr en eftir að þátturinn var búinn, þá forðuðu þau sér út í myrkrinu.“

Báðir hafa þeir Jon Favreau og Dave Filoni verið helstu sprauturnar í sjón­varps­heimi Stjörnu­stríðsins sem byggður hefur verið upp undan­farin ár.

Mjög á­huga­samur um Ís­land

„Warwick var virki­lega hress. Við hittum hann af eins­kærri til­viljun, hann var að ganga inn um starfs­manna­inn­gang fyrir þá sem eru með öðru­vísi passa en hinir,“ segir Marteinn.

Hann gaf honum merki Ís­lands­deildar 501st. „Hann þakkaði kær­lega fyrir og spurði hvaðan við værum og þegar við sögðumst vera frá Ís­landi sagðist hann ein­mitt vera að fara til Ís­lands í næsta mánuði, bara með fjöl­skyldunni í frí.“

Leikarinn spurði Martein og fé­laga hvað hann ætti að sjá á Ís­landi. „Við sögðum honum að hann ætti bara að sjá allt,“ segir Marteinn hlæjandi.

Marteinn segir að hann alveg myndi þiggja fimm sentímetra í viðbót þegar hann bregður sér í búning Svarthöfða.Marteinn Ibsen

Maí er mánuður Stjörnu­stríðs

Ís­lands­deild 501st hefur að sögn Marteins nóg fyrir stafni í maí. 40 ár eru um þessar mundir síðan Star Wars: Return of the Jedi var frum­sýnd í kvik­mynda­húsum og var há­tíðar­sýning í Sam­bíóum Kringlunni í vikunni.

„Við mættum tíu í búning þangað og það var mikil stemning. Ég sé reyndar ekkert út um þennan Svart­höfða­hjálm, þannig kannski vorum við fleiri,“ segir Marteinn enn hlæjandi.

501st ætlar svo að fagna sjálfum Stjörnu­stríðs­deginum sem er 4. maí á Bóka­safni Hafnar­fjarðar. „Við verðum þar reyndar tveimur dögum síðar, þann 6. maí og ætlum að mæta með her­sveit Keisara­veldisins og hvetjum bara alla til þess að mæta í búningum.“

Það verður nóg um að vera hjá hinum íslenska Svarthöfða og félögum í 501st í maí. Marteinn Ibsen





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.