Íslenski boltinn

„Sambland af spennu og stressi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir er fyrirliði Breiðabliks og verður í eldlínunni gegn Valskonum í kvöld.
Ásta Eir Árnadóttir er fyrirliði Breiðabliks og verður í eldlínunni gegn Valskonum í kvöld. Vísir/Diego

„Það er mjög mikill fiðringur í maganum, sambland af mikilli spennu og stressi sem er held ég bara eðlilegt,“ segir Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, sem mætir Val í stórleik í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld.

„Það er byrjað með látum. Ég held það sé bara mjög skemmtilegt, bæði fyrir liðin og áhorfendur og það er bara um að gera að byrja mótið svona,“ segir Ásta um leik kvöldsins en Breiðablik og Valur hafa háð toppbaráttu síðustu ár.

„Það eru allir mjög gíraðir. Það er skemmtilegt að komast af stað, andinn í hópnum er mjög góður og ég hef góða tilfinningu fyrir bæði liðinu og hópnum. Við erum mjög spenntar,“ bætir hún við.

Spennandi mót fram undan

Eftir mikla yfirburði liðanna tveggja sem mætast í kvöld síðustu ár kom Stjarnan sterk inn á síðustu leiktíð og endaði í öðru sæti, fyrir ofan Breiðablik. Stjörnunni, Breiðabliki og Val er spáð efstu þremur sætunum af flestum aðilum en misjafnt hvar liðin eru staðsett í spám. Ástu lýst vel á toppbaráttuna sem fram undan er.

„Það eru greinilega margir ósammála eða sammála um að vera ósammála. En svo er spá bara spá. Þetta verður mjög spennandi. Það eru alveg fjögur til fimm lið sem eru líkleg til að vera í topp tveimur. En ég er spennt fyrir jöfnu og spennandi móti. Allir leikir eru spennandi leikir sem sýndi sig í fyrra þegar við töpuðum stigum fyrir liðum í neðri hlutanum. Það er ekkert gefið og við þurfum að byrja þetta af krafti,“

Aðspurð hvort eitthvað annað en sigur væri boði í kvöld segir Ásta:

„Það kemur ekkert annað til greina.“

Valur og Breiðablik mætast klukkan 19:15 í kvöld að Hlíðarenda. Helena Ólafsdóttir og sérfræðingar Bestu markanna hita upp fyrir leikinn frá klukkan 18:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×