Íslenski boltinn

Albert um KA: „Margir aðrir sem tóku við keflinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson og fleiri sóknarmenn KA munu fylla skarð Nökkva Þeys Þórissonar að mati Alberts Ingasonar.
Hallgrímur Mar Steingrímsson og fleiri sóknarmenn KA munu fylla skarð Nökkva Þeys Þórissonar að mati Alberts Ingasonar. vísir/hulda margrét

Albert Ingason hefur trú á því að KA geti fyllt skarð Nökkva Þeys Þórissonar í sumar. Liðinu er spáð 4. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Það verður mjög forvitnilegt að fylgjast með því. Nökkvi kom mest á óvart í deildinni í fyrra og hvort það verði bara einhver annar sem stígi upp hjá þeim í ár,“ sagði Albert sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

„Þeir fengu Harley Willard frá Þór Ak. Maður hefur alveg trú á honum. Pætur [Petersen] hefur komið vel inn. Svo eru leikmenn sem komu inn seinni hlutann í fyrra, eins og Hallgrímur Mar [Steingrímsson] sem náði ekki fullu undirbúningstímabili í fyrra en minnti á sig undir lokin. Ásgeir [Sigurgeirsson] á helling inn líka. Það er eitthvað inni á tanknum hjá fleirum en Nökkva. Þeir sýndu það alveg eftir að Nökkvi fór að það voru margir aðrir leikmenn sem tóku bara við keflinu. Þetta er örugglega eitt af fáum liðum sem eru sáttir með hvað þeir skoruðu mikið af mörkum í fyrra og fengu fá mörk á sig.“

En hvar sér Albert KA berjast í Bestu deildinni í sumar?

Klippa: KA - 4. sæti

„Ég sé KA berjast í efri hlutanum en í topp sex baráttunni. Ég hef ekki trú því að þeir verði í alveg jafn mikilli titilbaráttu og í fyrra, eða ekki nær því. Þeir berjast aftur um Evrópusæti,“ sagði Albert.

Fyrsti leikur KA í Bestu deildinni er gegn KR mánudaginn 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×