Íslenski boltinn

Baldur um KR: „Mín tilfinning er að þeir geti orðið meistarar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Baldur Sigurðsson er bjartsýnn fyrir hönd KR í sumar.
Baldur Sigurðsson er bjartsýnn fyrir hönd KR í sumar. vísir/hulda margrét

Baldur Sigurðsson er bjartsýnn fyrir hönd KR í sumar. Liðinu er spáð 5. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Ég held að við megum búast við góðu sumri hjá KR. Það er mín tilfinning. Ég hef meiri væntingar til KR í sumar en þessi spá. Mér finnst þeir vera ferskari í ár. Þeir eru að gera þessi kynslóðaskipti sem þeir hafa sjálfir viðurkennt að hafa farið kannski of seint í,“ sagði Baldur sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

„Nú eru kynslóðaskiptin að ganga í gegn. Þessir ungu strákar sem voru fengnir fyrir síðasta tímabil náðu þá ekki þeim árangri sem þeir vildu en eru núna orðnir árinu eldri og spilað sig meira saman. Það er kominn norskur aðstoðarþjálfari sem hefur komið inn með ferska vinda hefur maður heyrt. Svo hafa komið erlendir leikmenn sem líta vel út.“

Baldur telur að KR-ingar geti barist um Íslandsmeistaratitilinn sem þeir hafa ekki unnið síðan 2019.

„Ef ég tek KR-liðið og hef ég góða tilfinningu fyrir þeim. Ég held að þeir geti verið í baráttunni á toppnum. En þá þurfa ákveðnir leikmenn að haldast heilir,“ sagði Baldur.

„Ég hef trú á þeim og mín tilfinning, ef þú talar um bestu mögulegu niðurstöðu fyrir KR, er að þeir geti orðið Íslandsmeistarar.“

Fyrsti leikur KR í Bestu deildinni er gegn KA 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×