Klinkið

Fjárfestahópur í Sýn nálgast yfirtökuskyldu

Ritstjórn Innherja skrifar
Samanlagður eignarhlutur þessara samhæfðu fjárfesta nemur rúmlega 29 prósentum.
Samanlagður eignarhlutur þessara samhæfðu fjárfesta nemur rúmlega 29 prósentum.

Fjárfestahópurinn sem tryggði sér meirihluta stjórnarsæta í Sýn er kominn með samtals 29 prósenta hlut í fjarskipta- og fjölmiðlunarfyrirtækinu. Eignarhluturinn nálgast því 30 prósenta mörkin sem virkja yfirtökuskyldu samkvæmt lögum ef fjárfestarnir ákveða, eða eru taldir, eiga með sér samstarf.

Tilkynnt var til Kauphallarinnar í morgun að Hákon Stefánsson, forstjóri InfoCapital, hefði keypt milljón hluti í Sýn í gegnum félagið Íslex fyrir tæplega 55 milljónir króna. InfoCapital er í eigu Reynis Grétarssonar sem jafnframt er aðaleigandi Gavia Invest, stærsta hluthafa Sýnar. 

Með kaupunum fara Gavia Invest, sem er stærsti hluthafi Sýnar, og félög sem njóta sömu yfirráða, þ.e. Íslex og InfoCapital, með samtals 20,78 prósent af atkvæðisrétti í Sýn. 

Til viðbótar á Fasti ehf., sem er í eigu Rannveigar Eirar Einarsdóttur og Hilmars Þórs Kristinssonar, rúmlega 8 prósenta hlut í Sýn. Þau stækkuðu við hlut sinn í fjarskiptafélaginu sumarið 2022 skömmu eftir innkomu Gavia Invest og hafa báðir fjárfestahópar stillt saman strengi sína síðan þá.

Samanlagður eignarhlutur þessara einkafjárfesta nemur rúmlega 29 prósentum en samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti myndast yfirtökuskylda þegar eignarhlutur hluthafa, einn eða í samstarfi við aðra, í félagi fer yfir 30 prósent. Fjárfestarnir hafa enn sem komið er hins vegar ekki gert með sér formlegt samstarf.

Þrír stjórnarmenn Sýnar eru á vegum fjárfestahópanna tveggja en það eru Jón Skaftason, stjórnarformaður, Hákon Stefánsson og Rannveig Eir Einarsdóttir. 

Samkvæmt  afkomuspá sem Sýn gaf út eftir birtingu ársuppgjörs fyrir 2022 þá er gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins á þessu ári verði á bilinu 2,2 til 2,5 milljarðar króna. Sú afkomuspá tekur ekki tillit til einskiptishagnaðar vegna sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans fyrir 3 milljarða krón en væntingar eru um að viðskiptin klárist endanlega á fyrri helmingi þessa árs.  

Bókfærður hagnaður vegna sölunnar verður 2.436 milljónir og fram hefur komið í máli stjórnenda að til standi að skila þeim ávinningi til hluthafa.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Stjórnin endurspegli ekki hluthafahóp Sýnar

Í dag fóru þrjú félög, sem saman fara með 10,8 prósent hlut í Sýn, fram á að haldinn yrði annar hluthafafundur og ný stjórn yrði kjörin. Fasti ehf., sem er í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur, er stærsta félagið í hópnum. Hilmar Þór segir að stjórn Sýnar endurspegli einfaldlega ekki hluthafahóp félagsins.






×