Lífið

Sagði nei við Bond eftir afar­kost frá eigin­konunni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Liam Neeson árið 2018.
Liam Neeson árið 2018. Getty/Nicholas Hunt

Liam Neeson var boðið að leika breska njósnarann James Bond áður en Pierce Brosnan fékk hlutverkið. Hann hætti við að taka við því eftir að eiginkona hans, þáverandi kærasta, sagðist ekki ætla að giftast honum ef hann tæki við hlutverkinu. 

Árið 1993, stuttu eftir að Óskarsverðlaunamyndin Schindler's List kom út, var aðalleikara myndarinnar, Liam Neeson, boðið að leika James Bond. Þá hafði samningur um að Timothy Dalton myndi leika njósnarann runnið út og verið var að leita að eftirmanni hans. 

Í viðtali við Rolling Stone segir Neeson að hann hafi heldur betur viljað leika njósnarann. Það var þó afarkostur frá Natasha Richardson heitinni, þáverandi kærustu Neeson, sem kom í veg fyrir að hann tæki við hlutverkinu. 

„Liam, ég þarf að segja þér eitt. Ef þú leikur James Bond, þá erum við ekki að fara að gifta okkur,“ sagði Richardson við Neeson. Honum þótti Richardson meiri fengur en hlutverkið og hafnaði því að leika njósnarann. 

Það fór sem svo að Pierce Brosnan tók við hlutverkinu og lék Bond í fjórum kvikmyndum. Sú fyrsta, GoldenEye, kom út árið 1995 en árið áður gengu Neeson og Richardson í hjónaband. 

Richardson lést árið 2009 eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg er hún var á skíðum í Montreal í Kanada. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.