Umræðan

Skiptir stærðin máli?

Baldur Thorlacius skrifar

Hún er ansi lífseig, mýtan um að fyrirtæki þurfa að hafa náð umtalsverðri stærð til að eiga nokkurt erindi á almenningshlutabréfamarkað. Að umstangið og kostnaðurinn sem fylgir skráningu á markað sé allt of mikill fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Minnstu fyrirtækin á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland eru í kringum 15 milljarðar króna að markaðsvirði. Einhverjum gæti þótt það full lítið fyrir skráningu á markað. En hvað segja gögnin?

Í heildina voru 639 fyrirtæki skráð á Aðalmörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum sl. áramót. Þar af var ríflega fjórðungur(!) þeirra minni en minnstu íslensku fyrirtækin, að markaðsvirði. Það sem meira er, 13% þeirra voru með markaðsvirði undir 2 milljörðum íslenskra króna. Íslensku „stubbarnir“ þykja því alls ekki litlir á norrænan mælikvarða.

Þegar Nasdaq First North vaxtarmarkaðurinn, sem er sérsniðinn að þörfum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, er skoðaður má sjá að af þeim 539 fyrirtækjum sem voru skráð sl. áramót á Nasdaq á Norðurlöndunum voru 87% þeirra undir 15 ma. kr. að markaðsvirði. Heil 27% voru minni en 1 milljarður króna að markaðsvirði.

Það hentar ekki öllum fyrirtækjum að vera almenningshlutafélög. En stærð og kostnaður eru yfirleitt ekki sá þröskuldur sem af er látið.

Þetta eru allt fyrirtæki sem þurfa að uppfylla sömu skilyrði og þau íslensku – og gott betur í einhverjum tilfellum. Á sænska markaðnum, þar sem flest þessara fyrirtækja eru skráð, er t.a.m. enn krafa um ársfjórðungslega birtingu fjárhagsupplýsinga á Aðalmarkaði. Á íslenska markaðnum er einungis krafa um hálfsárslega birtingu.

En hvernig má þetta vera? Hvernig getur þessi mikli fjöldi lítilla fyrirtækja, sem sum hver eru bara með örfáa starfsmenn, verið skráð almenningshlutafélög og uppfyllt allar kröfur markaðarins? Mögulega vegna þess að umstangið og kostnaðurinn við að vera skráð fyrirtæki er ekki jafn mikill og af er látið.

Margur er knár, þótt hann sé smár

Eins og í svo mörgu öðru snýst þetta um að sníða sér stakk eftir vexti. Það er ríkur skilningur fyrir því að lítil fyrirtæki geri ekki allt eins og þau stóru. Haldi ekki jafn marga afkomufundi, innleiði ekki allt úr leiðbeiningum um stjórnarhætti, kaupi ekki sömu þjónustuna, ráði ekki sömu ráðgjafana o.s.frv. Þau höfða líka að einhverju leyti til annarra fjárfesta en þau stóru. Í því felast tækifæri.

Sem leiðir okkur að ábatanum. Það er gjarnan talað um að seljanleiki lítilla fyrirtækja sé of takmarkaður til að skráning á markað borgi sig. Rýnum því aftur í gögnin. Tökum Sýn hf. sem dæmi. Markaðsvirði Sýnar var um 16 milljarður króna sl. áramót. Að meðaltali var tæplega 73 milljón króna velta á dag með hlutabréf félagsins á árinu 2022.

Einhverjum gæti þótt þetta lítið. Til samanburðar var dagleg velta með Arion, Íslandsbanka og Marel í kringum 600 milljónir króna. En þetta eru mun stærri fyrirtæki. Ef tekið er mið af stærð Sýnar var veltan ansi góð. Til að mæla þetta notum við svokallaðan veltuhraða (e. turnover velocity), en hann sýnir einmitt veltu leiðrétta fyrir stærð fyrirtækis. Veltuhraði Sýnar á árinu 2022 var 109%, mest allra fyrirtækja í Kauphöllinni.

Það getur því verið eftir miklu að slægjast með skráningu smærri fyrirtækja á markað, þó svo veltan kunni að virka lítil þegar hún er borin saman við stærri fyrirtæki.

Einungis 11% fyrirtækja á Aðalmörkuðum Nasdaq Nordic voru með hærri veltuhraða en Sýn í fyrra. Fyrir fyrirtækin og hluthafa þeirra skiptir veltuhraðinn mestu máli, ekki veltan í krónum talin. Veltuhraðinn veitir vísbendingar um það hversu langan tíma það gæti tekið að koma stórum hlut í fyrirtækjunum í verð og þar með getu þeirra til að afla sér fjármagns á markaðnum. Minnstu fjögur fyrirtækin á íslenska markaðnum voru með veltuhraða á bilinu 47 – 109% í fyrra. Miðgildi veltuhraða skráðra fyrirtækja á Aðalmörkuðum Nasdaq Nordic var 32%. Hæstur var hann á íslenska markaðnum, eða 51%.

Það getur því verið eftir miklu að slægjast með skráningu smærri fyrirtækja á markað, þó svo veltan kunni að virka lítil þegar hún er borin saman við stærri fyrirtæki. Til að svara spurningunni sem varpað var fram í titli þessa pistils þá skiptir stærðin vissulega máli. En stærra er ekki alltaf betra.

Hlutabréfamarkaðurinn er ekki „one size fits all“ heldur þurfa fyrirtæki að huga að stærð sinni bæði með tilliti til þess hvernig þau aðlaga sig að leikreglum (og væntingum) markaðarins sem og hvernig þau beita sér í fjárfestatengslum. Það hentar ekki öllum fyrirtækjum að vera almenningshlutafélög. En stærð og kostnaður eru yfirleitt ekki sá þröskuldur sem af er látið.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland




Umræðan

Sjá meira


×