Sport

Neitar að keppa fyrir Bretland í Ástralíu vegna kolefnisfótspors ferðarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Innes Fitzgerald er öflugur víðavangshlaupari en líka mikill umhverfissinni.
Innes Fitzgerald er öflugur víðavangshlaupari en líka mikill umhverfissinni. Getty/Sam Barnes

Breska frjálsíþróttakonan Innes FitzGerald hefur hafnað boði um að keppa fyrir Bretland í frjálsíþróttakeppni í Ástralíu.

Ástæðan sem FitzGerald gefur upp er sú að hún hefur áhyggjur af kolefnisfótspori flugferðarinnar.

FitzGerald skrifaði bréf þar sem hún útskýrði ákvörðun sína.

„Það eru mikil forréttindi að fá tækifæri til að keppa fyrir hönd Bretlands í Ástralíu. Hins vegar verð ég því miður að hafna þessu góða boði,“ skrifaði Innes FitzGerald.

„Þegar ég byrjaði að hlaupa þá hefði möguleikinn á því að keppa á heimsmeistaramótinu í víðavangshlaupi verið algjör draumur. Staðreyndin er sú að ferðalagið veldur mér miklum áhyggjum. Ég var bara níu ára þegar var skrifað undir Parísarsamkomulagið. Núna átta árum síðar, þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist jafnt og þétt og núna erum við að beinni leið til loftslagshamfara,“ skrifaði FitzGerald.

Hún sagði jafnframt að flugferðir væru að eyðileggja lífsafkomu, heimili og ástvini og það minnsta sem hún gæti gert væri að standa með þeim sem þjást í framvarðarlínunni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

FitzGerald tók það fram að þetta hafi verið mjög erfið ákvörðun en það væri ekkert miðað við sorgina sem hún hefði upplifað hefði hún flogið til Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×