Tónlist

Björk treður upp á Coachella 2023

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Björk á tónlistarhátíðinni Primavera sound í Chile í nóvember á síðasta ári.
Björk á tónlistarhátíðinni Primavera sound í Chile í nóvember á síðasta ári. getty

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir mun koma fram á einni stærstu tónlistarhátíð Bandaríkjanna, Coachella í apríl.

Tilkynnt var um tónlistarmennina sem munu troða upp á hátíðinni vinsælu í kvöld. Ásamt Björk munu Bad Bunny, Blackpink, Frank Ocean, Gorillaz og Rosalía koma fram. 

Björk kemur fram sama kvöld og söngvarinn Frank Ocean, sunnudaginn 16. apríl og sunnudaginn 23. apríl en hátíðin, með sömu tónlistarmönnum, verður haldin tvær helgar í apríl; 14.-16. apríl og 21.-23. apríl. Björk er önnur í röðinni á eftir Frank Ocean á plakati fyrir hátíðina og virðist því mikið gert úr hennar komu á hátíðina. 

Tónlistarhátíðin Coachella fer fram í eyðimörkinni í Indio í Kaliforníu og skartar alla jafnan stærstu tónlistarmönnum heims. Á hátíðinni árið 2022 komu fram tónlistarmenn á borð við The Weeknd, Billie Eilish, Doja Cat og Arcade Fire, svo fáeinir séu nefndir. The Weeknd og raftónlistarsveitin Sweedish House Mafia hlupu að vísu í skarð Kanye West sem átti að koma fram á hátíðinni. Forsvarsmenn hátíðarinnar hafa krafið West um sjö milljónir bandaríkjadala, rúman milljarð íslenskra króna, í skaðabætur vegna vinnu sem fór í að undirbúa komu hans í fyrra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×