Lífið

„Ég gat ekki borðað án að­­­­stoðar, stefnu­­­­mót með mér er svo sannar­­­­lega öðru­­­­vísi“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þau Sylwia Nowakowska og Guðmundur Felix voru viðmælendur í hlaðvarpinu Betri helmingurinn.
Þau Sylwia Nowakowska og Guðmundur Felix voru viðmælendur í hlaðvarpinu Betri helmingurinn.

Hjónin Guðmundur Felix og Sylwia eiga það sameiginlegt að vera með einstakt hugarfar sem einkennist af ákveðnu æðruleysi. Það sýndi sig á fyrsta stefnumótinu þegar Sylwia þurfti strax að aðstoða Guðmund við að borða. Þau urðu því strax afar náin og hafa þau í dag verið gift í sjö ár.

Guðmundur Felix Grétarsson hefur verið áberandi undanfarin ár eftir að hann undirgekkst aðgerð þar sem hann fékk ágræddar hendur. Það var þó ekki aðeins aðgerðin sem vakti athygli, heldur kolféll þjóðin fyrir jákvæðu hugarfari hans. Á síðasta ári var hann valinn maður ársins af hlustendum Bylgjunnar og lesendum Vísis fyrir þrautseigju sína og bjartsýni.

Betri helmingur Guðmundar er Sylwia Nowakowska. Sylwia er frá Póllandi en flutti átján ára gömul til Frakklands til þess að gerast au pair. Í kjölfarið settist hún að í Lyon í Frakklandi þar sem hún kynntist Guðmundi.

Kynntust á samkomu fyrir aðflutta í Lyon

Þau Guðmundur og Sylwia voru gestir í 88. þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Í þáttunum fær hann til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helmingi og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.

Í þættinum rifja þau Guðmundur og Sylwia upp hvernig leiðir þeirra lágu saman.

„Við vorum bæði tiltölulega nýflutt til Lyon en við vorum bæði frekar virk í félagslífinu. Við mættum bæði á samkomu í gegnum heimasíðuna Meet Up sem er starfræk út um allan heim en þetta var samkoma fyrir enskumælandi fólk í Lyon,“ segir Sylwia frá.

Tilgangur samkomunnar var að gefa aðkomufólki tækifæri til þess að kynnast fólki á svæðinu og skapa tengslanet.

Lét gervihendurnar ekkert á sig fá

„Ég fór til hans og spjallaði við hann, sem er mjög skrítið því ég hef aldrei gert það áður. Þetta var mjög skrítið. Þarna fór ég algjörlega út fyrir minn þægindaramma en hér erum við í dag og höfum verið gift í sjö ár,“ segir Sylwia.

Á þessum tíma var Guðmundur með gervihendur sem hann lýsir sem eins konar krókum. Hann segist hafa verið vanur því að fólk léti stundum skringilega í kringum hann. Sylwia lét gervihendurnar hins vegar ekkert á sig fá og nálgaðist hann rétt eins og hvern annan og það heillaði Guðmund.

„Nokkrum dögum síðar hringdi ég í hana og spurði hvort hún vildi hitta mig í kaffi. Við fórum í kjölfarið á kaffihús og áttum gott spjall. Svo þróuðust hlutirnir bara frekar hratt hjá okkur,“ segir Guðmundur.

Þau segja þó að aðstæður Guðmundar hafi vissulega haft áhrif á það hve fljótt þau urðu náin.

Ofhugsaði ekki aðstæðurnar og lét hjartað ráða för

„Ég gat ekki borðað án aðstoðar, þannig að stefnumót með mér er svo sannarlega öðruvísi. Það verður mjög persónulegt og það skapast ákveðin nánd mjög fljótt. Venjulega hefur fólk kost á því að halda ákveðinni fjarlægð til að byrja með, eitthvað sem er ekki beinlínis hægt þegar þú þarft að hjálpa hinni manneskjunni,“ segir Guðmundur.

Sylwia segist hins vegar ekki hafa ofhugsað þessar aðstæður. Hún lét hjartað ráða för og segir þetta því allt hafa gerst mjög náttúrulega. Hún segir stöðu Guðmundar í raun hafa veitt þeim ákveðið forskot.

„Það var ekkert pláss fyrir tilgangslaus vandamál eða drama. Við byrjuðum að búa saman mjög fljótt. Þá var ég ekkert í stöðu til þess að segja „nú er ég reið við þig og ætla ekki að tala við þig í heilan dag“ því hann þurfti á mér að halda. Þannig við urðum fljótt mjög fær í því að leysa úr vandamálum og eiga samskipti.“

Láta athugasemdir vegna aldursmunar ekki á sig fá

Guðmundur segist vera afar lánsamur að hafa kynnst Sylwiu, því það sé síður en svo sjálfsagt að finna einhvern með svo þroskað hugarfar. Þau eru bæði mjög andlega þenkjandi og ná þess vegna vel saman. Guðmundur hefur sjálfur lagt mikla vinnu í sitt eigið hugarfar í tólf spora kerfinu sem hann gekk í gegnum. Hugarfar Sylwiu kemur hins vegar að miklu leyti úr jógafræðum en hún er menntaður jógakennari.

Sextán ára aldursmunur er á milli Guðmundar og Sylwiu. Þau segjast þó ekki verða vör við aldursmuninn nema kannski að því leyti hve ólíkan smekk þau hafa á bíómyndum.

Þau segja frá atviki sem þau lentu í eitt sinn þegar þau voru í heimsókn á Íslandi. Þau voru stödd í Laugardalshöll þar sem voru vörukynningar á hinum ýmsu básum. Á einum bás var verið að kynna rauðrófuskot sem Sylwia fékk að smakka.

„Hún spurði hvort hún gæti fengið annað. Þá segir konan „já eitt fyrir pabba þinn“. Þannig ég þurfti að segja henni að ég væri ekki pabbi hennar,“ segir Guðmundur og hlær. Þau segjast ekki taka svona misskilningi nærri sér, heldur hafi þau mikinn húmor fyrir þessu.

Sylwia og Guðmundur Felix hafa verið gift í sjö ár.

Jákvæðar breytingar á hjónabandinu í kjölfar aðgerðarinnar

Í gegnum tíðina hefur Guðmundur augljóslega þurft að reiða sig mikið á Sylwiu vegna aðstæðna. Þrátt fyrir það segjast þau ekki vera háð hvort öðru. Þau segjast vissulega eyða miklum tíma saman en eru meðvituð um að gefa hvort öðru pláss og kunna vel að meta þann tíma sem þau fá út af fyrir sig.

Eftir að Guðmundur undirgekkst aðgerðina breyttist þó heilmikið í þeirra sambandi til hins betra.

„Ég hef meira rými til þess að vera ekki alltaf á staðnum. Áður fyrr var mikil áskorun fyrir hann að vera aleinn heima í marga klukkutíma. Þannig ég bjó alltaf við ákveðnar hömlur en í dag má segja að þessar hömlur séu ekki eins miklar, sem er ótrúlegt. Það er gott fyrir okkur bæði. Það er heldur ekki gott fyrir hann að líða eins og hann sé að hamla mér að einhverju leyti. Þannig þetta er betra fyrir sjálfstraustið hans og ég get farið í helgarferð án þess að fjölskyldumeðlimur þurfi að fljúga frá Íslandi til þess að vera hjá honum,“ segir Sylwia.

Héldu að Guðmundur væri að snýta sér í Sylwiu

Í þættinum eru Guðmundur og Sylwia beðin um að rifja upp spaugilegt atvik úr sinni sambandstíð. Sylwia segir þá frá atviki sem átti sér stað eitt sinn þegar þau voru að labba á vinsælli göngugötu í Lyon.

„Ein stærsta áskorunin fyrir Guðmund, og eitthvað sem fólk með hendur tekur sem sjálfsögðum hlut, er að klóra sér. Þannig að þegar Guðmundur þarf að klóra sér þá lítur það mjög furðulega út, mjög furðulega!“

Til þess að klóra sér þarf Guðmundur að nudda sér upp við þann hlut sem er næstur honum, eða í þessu tilfelli manneskju.

„Þarna þurfti hann að klóra sér, þannig hann nuddaði sér upp við mig. Fólk sem var að labba framhjá okkur hélt að hann þyrfti svona mikið að snýta sér og hann væri að snýta sér í mig, þannig að fólk fór að rétta okkur tissjú. Mér fannst þetta svo sprenghlægilegt, að fólk héldi í alvöru að ég myndi bara leyfa honum að snýta sér í mig,“ segir Sylwia og hlær.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Guðmund Felix og Sylwiu í heild sinni. Athugið að allur þátturinn fer fram á ensku.


Tengdar fréttir

Guðmundur Felix maður ársins hjá hlustendum og lesendum

Guðmundur Felix Grétarsson er maður ársins að mati hlustenda Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og lesenda Vísis. Guðmundur Felix fékk ágræddar hendur á árinu eftir langa bið í Frakklandi. Hann hefur með óbilandi trú og kjarki verið fyrirmynd fólks og sýnt mikla þrautseigju og bjartsýni.

„Þetta er búið að vera stórkostlegt líf“

Ég hef fengið mörg tækifæri til þess að gefast upp og það hafa komið fram margar raddir sem segja mér að hætta þessu, segir Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk fyrstur manna grædda á sig tvo handleggi fyrr á árinu. Hann segir uppgjöf hins vegar aldrei hafa verið inni í myndinni og horfir bjartsýnn fram á veginn.

Fékk að knúsa barnabarnið í fyrsta skipti

Guðmundur Felix Grétarsson er kominn til landsins í fyrsta sinn eftir að hafa fengið grædda á sig handleggi. Hann ætlar að taka sér kærkomið frí til að knúsa börnin sín í fyrsta sinn eftir að hafa fengið handleggi, og fékk í gær loks að knúsa nýfætt afabarn sitt.

„Ég vissi bara að það væri engin leið út úr því að elska hann“

Hjónin Snærós Sindradóttir og Freyr Rögnvaldsson hittust fyrst í rútu fyrir fjórtán árum síðan. Þau heilluðust samstundis hvort af öðru en ætluðu sér þó aldrei að byrja saman. Þremur árum síðar lágu leiðir þeirra svo saman á ný og var þá ekki aftur snúið.

Ást við þriðju sýn: „Ég var bara bál­skotinn og gat ekki þrætt fyrir það“

Hjónin Davíð Þór Jónsson og Þórunn Gréta Sigurðardóttir eiga það einna helst sameiginlegt að elska kaffi, sjónvarpsþættina Desperate Housewives og lifa áfengislausum lífsstíl. Þau hittust fyrst árið 1999 en þá áttu leiðir þeirra þó eftir að liggja saman tvisvar í viðbót áður en ástin tók völd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×