Lífið

Þveröfug þróun hvað jólapóstinn varðar í Ásmundarsal

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar

Pósthúsum og bréfasendingum hefur fækkað undanfarin ár en fyrir þessi jól hefur orðið þveröfug þróun í Ásmundarsal. Þar hefur Pósturinn opnað pósthús sem hluta af árlegri jólasýningu salarins. Jólapósthúsið sendir gesti aftur í tímann með leikmynd og ljósum og þaðan er líka hægt að senda jólakort hvert á land sem er. 

Tímaflakk hefur lengi heillað fólk en hefur ekki reynst mögulegt. Það er þó hægt að fá smjörþefinn með heimsókn í Pósthúsið í Ásmundarsal fyrir þessi jól. Um er að ræða samstarfsverkefni Ásmundarsalar og Póstsins en þar er hægt að póstleggja jólakort fram að jólum. Sérstakur ljósabúnaður, leikmynd og búningar eru notaðir til þess að skapa gamaldags upplifun.

„Núna vorum við að opna jólasýningu Ásmundarsalar um helgina og í ár ákváðum við að opna pósthús sömuleiðis. Þannig að hér í Gunnfríðargryfju er bara starfrækt pósthús. Fórum í samstarf við Póstinn og hér geta allir komið og póstlagt kort til vina og vandamanna um allt land og þurfa ekki að borga krónu fyrir", segir Helga Jóakimsdóttir, framkvæmdastjóri Ásmundarsalar. 

Hér má sjá fréttamann okkar skrifa á jólakort til móður sinnar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

En hvers vegna er Pósturinn að taka þátt? 

„Það er náttúrulega bara mikill heiður fyrir okkur að taka þátt í jólasýningu hjá Ásmundarsalt enda erum við hjá póstinum ekkert eðlilega mikil jólabörn og elskum jólin,“ segir Vilborg Ásta Árnadóttir, markaðssérfræðingur hjá Póstinum.

Bréfsendingar eru orðnar sjaldgæfar um þessar mundir en margir halda enn í hefðina og skrifa jólakort.

„Svo er það nú þannig að það er ótrúlega mikill nostalgía í því að fá handskrifuð bréf eða fá að senda handskrifuð bréf. Svo ég tali nú ekki um einhverja fallega og einlæga jólakveðju,“ segir Vilborg að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.