Peterr með 38 fellur í æsispennandi leik

Snorri Rafn Hallsson skrifar
peterrr

Minidegreez tryggði Þór hnífalotuna gegn SAGA í Ancient og fékk Þór því að byrja í vörn í leiknum. Það fór ekki betur en svo að SAGA vann fyrstu fjórar loturnar og tókst í þremur tilfellum að koma sprengjunni fyrir og verja hana aðgerðum Þórsara. Í fimmtu lotu náði Minidegreez þó að aftengja sprengjuna og jafnaði Þór, 4–4, í kjölfarið.

Leikmenn SAGA voru þó enn sjóðheitir og áttu greiða leið inn á sprengjusvæðið þar sem þeir sprengdu sprengjuna í næstu þremur lotum á eftir til að komast yfir á ný. Úr varð sex lotu runa og forskot SAGA inn í síðari hálfleikinn virkilega gott.

Staða í hálfleik: Þór 5 – 10 SAGA

Öflugur sóknarleikur hafði reynst SAGA vel og sömu sögu var að segja fyrir Þór sem tókst snemma að minnka muninn í 11–10 með því að halda uppi góðri pressu. Hvorugt liðið lét þó andstæðinginn buga sig algjörlega, SAGA kom sér í 14–10 áður en Þórsarar jöfnuðu og komust svo yfir í fyrsta sinn í leiknum í 29. lotu þegar leikmenn SAGA voru orðnir blankir. ADHD var einn gegn 4 leikmönnum og tókst að taka út 2 þeirra, þar á meðal Peterrr sem rofið hafði 30–fellu múrinn skömmu áður en allt kom fyrir ekki og Þór var með yfirhöndina inn í síðustu lotuna.

SAGA lék þá með tvo vappa á vellinum en fallegt samspil Dom og Zerq kom leiknum í framlengingu.

Staðan eftir venjulegan leiktíma: Þór 15 – 15 SAGA

SAGA vann fyrstu lotuna í framlengingu en Þór komst fljótlega fram úr á ný. Síðasta lotan fór rólega af stað þar sem SAGA beitti alls konar búnaði til að hægja á leiknum en þegar liðin mættust loks skiptust þau á mönnum. Enduðu ADHD og Rean einir tveir eftir og þegar ADHD reyndi að koma sprengjunni fyrir tók Rean hann út og skilaði Þór þar með sigri í lotunni og leiknum.

Lokastaða: Þór 19 – 17 SAGA

Með sigrinum jafnaði Þór Dusty að stigum og sitja liðin nú í 2.-3. sæti á eftir Atlantic.

Næstu leikir liðanna:

  • Þór – Fylkir, þriðjudaginn 3/1, klukkan 19:30
  • SAGA – Atlantic, fimmtudaginn 5/1, klukkan 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira