Viðskipti innlent

Skapa 500 störf og 12 milljarða úr smáræði af fiskroði

Heimir Már Pétursson skrifar

Uppgangur líftæknifyrirtækisins Kerecis á Ísafirði hefur verið ævintýralegur. Fyrirtækið framleiðir einstaklega græðandi umbúðir úr þorskroði sem oft á tíðum kemur í veg fyrir að aflima þurfi fólk. Verðmæti afurðanna er meira en alls sjávarfangs á Vestfjörðum að frátöldu fiskeldi.

Kerecis er með höfuðstöðvar á Ísafirði þar sem öll framleiðsla fer fram og veitir tæplega sjötíu manns vinnu. En tæplega fimm hundruð manns vinna hjá fyrirtækinu þar, í Reykjavík og í Bandaríkjunum sem er aðalmarkaður afurðanna.

Mikil áhersla er lögð á hreinlæti við framleiðsluna.Kerecis

Það er sannkallað ævintýri sem hefur átt sér stað hjá hinu tíu ára gamla fyrirtæki Kerecis á Ísafirði. Það eru ekki allir sem geta státað af því að búa til ellefu til tólf milljarða úr tæplega tvö hundruð tonnum af fiski. En það er einmitt það sem gerist.

En það segir ekki alla söguna því Kerecis nýtir einungis roðið af þorskinum sem annars yrði hent. Það eru tæplega tvö tonn af roði á ári, þannig að framlegðin er gífurlega mikil.

Kerecis hefur lagt áherslu á heilbrigðismarkaðinn í Bandaríkjunum þar sem um 150 þúsund sykursýki sjúklingar eru aflimaðir á hverju ári vegna sýkinga í fótum.Kerecis

Þessar græðandi sáraumbúðir eru uppfinning Guðmundar Fertram Sigrjónssonar stofnanda fyrirtækisins sem einnig er forstjóri þess og er efna- og verkfræðingur að mennt. Hann segir að þar til Kerecis kom fram með sína vöru hafi aðallega verið notast við líkhúð, húð af svínum eða sjúklingunum sjálfum.

„Þorskroðið er hreinna en spendýravefur. En aðalmálið með þorskinn er að hann lifir bara í eins til tveggja gráðu hita. Það eru engar veirur sem geta smitast frá þorski yfir í menn því hitastuðullinn er svo breytilegur. Þannig að við þurfum ekki að meðhöndla þorskroðið með kemískum efnum,“ segir Guðmundur þar sem hann sýnir okkur framleiðslustöðina.

Vinnslan væri því bæði mun umhverfisvænni og lítil hætta á veirusmiti.

Guðmundur F. Sigurjónsson er stofnandi og forstjóri Kerecis sem í dag framleiðir verðmæti fyrir 11 -12 milljarða króna á ári.Stöð 2/Ívar

„Við bara tökum þorskroðið, hreinsum það í klefunum hérna. Þurrkum það, affrumum það og svo er það notað á sárin," segir Guðmundur.

Það eru miklar hreinlætiskröfur í kring um framleiðsluna. Fólk þarf að fara í gegnum tvö lofthreinsihólf áður en maður kemst að því allra heilagasta í dauðhreinsuðum hlífðarfatnaði.

„Sár eru mjög stórt vandamál á heimsvísu. Sérstaklega hjá sykursjúkum. Þeir eiga við vandamál að stríða, sármyndun á fótum. Háræðarnar deyja á fætinum, það koma sár og þessi sár stækka. Um sex prósent af öllum sykursjúkum fá svo stór sár að fætur eru aflimaðir,“ segir Guðmundur. Þá eru sárin jafnvel komin inn að beini og fólk í hættu með að deyja úr beineitrun.

Sykursýki 2 tengist oft offitu sem er mikið vandmál í Bandaríkjunum og vaxandi vandamál hér á landi og víða í Evrópu. Þess vegna hefur megin áherslan verið lögð á heilbrigðismarkaðinn í Bandaríkjunum en Evrópa er í sigtinu.

Guðmundur segir að aðferðin gefst einnig vel við meðhöndlun annarra sára. Fyrirtækið hafi til að mynda samning við bandaríska herinn.

Framleiðslan hófst að lokinni þróunarstarfsemi fyrir sex árum og hefur gengið mjög vel.

„Tekjurnar okkar núna á þessu fjárhagsári sem lauk 1. október voru 72 milljónir dollara. Við gerum ráð fyrir að tekjurnar á almanaksárinu miðað við gengið í dag verði ellefu til tólf miljarðar. Það er talsvert meira en allar tekjur af fiskvinnslu á Vestfjörðum ef ég tek ekki fiskeldið með,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson.


Tengdar fréttir

Nýr fram­kvæmda­stjóri hjá Kerecis

Dr. Dan Mooradian hefur tekið við sem framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarmála hjá Kerecis. Klara Sveinsdóttir sem var áður framkvæmdastjóri rannsóknar-, þróunar-, gæða- og skráningarmála mun nú einbeita sér einungis að gæða- og skráningarmálum.

Hætti sem stjórnarformaður Kerecis að kröfu nýja danska fjárfestisins

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, gegnir ekki lengur stjórnarformennsku í hinu ört vaxandi íslenska fyrirtæki í kjölfar aðalfundar þess í liðnum mánuði en þar var fulltrúi Kirkbi, fjárfestingafélag LEGO-fjölskyldunnar, kjörinn nýr í stjórnina eftir að danska félagið keypti rúmlega sex prósenta hlut í Kerecis fyrir jafnvirði um 5,5 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×