Tónlist

„Þið ættuð að hringja í lögregluna, þetta lag er ólöglega gott“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hljómsveitin Cyber var að gefa út nýtt lag.
Hljómsveitin Cyber var að gefa út nýtt lag. Margrét Unnur

Jóhanna Rakel og Salka Valsdóttir mynda hljómsveitina CYBER en sveitin var að senda frá sér splunkunýtt lag sem ber nafnið NO CRY. CYBER hafa nú lýst því yfir að þeir fáu heppnu sem fengu að smakka á lagstúfnum fyrir útgáfu hafi fallið í nokkurs konar trans.

„Við vissum að við héldum á miklum gæða singúl í höndunum, en ekkert gat undirbúið okkur fyrir þau áhrif sem lagið virðist hafa á fólk. Þið ættuð hringja í lögregluna! Þetta lag er ólöglega gott,“ segir Salka Valsdóttir, meðlimur hljómsveitarinnar. Blaðamaður tók púlsinn á Jóhönnu og Sölku og fékk að heyra nánar frá sköpunarferli þeirra.

Hvaðan sækið þið innblástur í þessu nýja lagi og hvað fjallar lagið um?

Við erum að vinna að plötu sem fjallar um tvo taugaóstyrka unglinga svo lög breiðskífunnar eru byggð á hinum ýmsu unglingatónlistarstefnum og svefnherbergispoppi. Lagið NO CRY byggir a texta sem Salka skrifaði í miðju rifrildi við kærastann sinn og tappaði því algjörlega inn á svona unglingalegan mótþróa og enginn skilur mig stemmninguna. 

Lagið einkennist af unglinga andofslegum söng, ærandi-málm gítarvæli og bassatrommu sem fær okkar allra hamingjusömustu borgara til þess að fella tár.

Hvernig skilgreinið þið tónlistina ykkar?

Tónlistin okkar er síbreytileg og eiginlega skilgreind eftir tímabilum hljómsveitarinnar. Það sem allar plöturnar okkar eiga sameiginlegt er að vera konsept plötur og fylgja því oft nýjar tónlistarstefnur og straumar með hverri plötu. Til að mynda er fyrsta breiðskífan okkar HORROR konsept plata um skilnað séðan í gegnum hryllingsmynda gleraugu. Á henni má finna tónlistarstefnur á við horror-core og dark pop.

Platan okkar VACATION er svo konsept plata um taugaveiklaða konu í sumarfríi, en þar er að finna draumkenndari hljóðheima og tónlistarstefnur sem við tengjum við vesturströnd Bandaríkjanna.

Hvað er á döfinni hjá CYBER?

Eins og áður var tekið fram þá erum við að vinna að breiðskífu á fullu og munum svo í framhaldi fara með hana á Evróputúr. Við erum líka að spila á þrennum tónleikum off-venue á Iceland Airwaves: Hjá Hildi Yeoman föstudaginn 4. nóvember klukkan 18:30, í 12 Tónum laugardaginn 5. nóvember klukkan 18:00 og á Prikinu sama dag klukkan 19:00.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.