Lífið

Hætta við þátttöku í Eurovision vegna hás kostnaðar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Söngkonunni Vladana tókst ekki að koma Svartfjallalandi í úrslit Eurovision í ár.
Söngkonunni Vladana tókst ekki að koma Svartfjallalandi í úrslit Eurovision í ár. Getty/Patricia J. Garcinuno

Svartfellingar koma ekki til með að taka þátt í Eurovision á næsta ári. Að sögn svartfellska ríkissjónvarpsins er það vegna hás kostnaðar sem fylgir þátttöku í keppninni.

Aftonbladet greinir frá þessu en sömuleiðis ætla Norður-Makedóníumenn ekki að taka þátt í keppninni. Ástæðan sem gefin er fyrir því er hækkun á orkuverði í heiminum.

Í fyrra kostaði það um 39 þúsund evrur að taka þátt í Eurovision, 5,5 milljónir íslenskra króna. Ofan á það leggjast svo ýmis gjöld, svo sem ferðakostnaður, uppihald á keppendum og fleira.

Síðan Svartfjallaland varð sjálfstætt ríki hefur Svartfellingum einungis tvisvar tekist að koma áfram úr undankeppni Eurovision. Það var árin 2014 og 2015 og lentu lögin í 19. og 13. sæti keppninnar.

Norður-Makedóníumönnum hefur gengið heldur betur og komist í úrslit níu sinnum í þau 22 skipti sem þeir hafa tekið þátt. Besti árangur þeirra var þegar þeir lentu í sjöunda sæti árið 2019 með lagið Proud.

Eurovision fer fram í Liverpool í Bretlandi á næsta ári. Úkraínumenn sigruðu keppnina í ár en geta ekki haldið hana vegna ástandsins þar eftir innrás Rússa í landið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.