Ofvirkur ofurefli við að etja í stærsta sigrinum til þessa

Snorri Rafn Hallsson skrifar
ofvirkur

Ármann tók á mót Fylki í Nuke kortinu. Vargur krækti í hnífalotuna fyrir Ármann sem valdi að byrja í vörn. Fylkir sótti hratt í skammbyssulotunni, Eiki47 felldi bræðurna Ofvirkan og Hyperactive, frysti svo og beið eftir upplýsingum frá Ármanni. leFluff felldi tvo til viðbótar og innsiglaði sigurinn í þessari fyrstu lotu með fellu á Varg.

Ástæða þess að ég fer svo mörgum orðum um fyrstu sigurlotu Fylkis, er sú að þetta var líka eina sigurlota Fylkis í leiknum.

Ármann jafnaði um hæl í þeirri næstu þar sem Vargur hefndi sín á leFluff. Fjórföld fella frá Ofvirkum í þriðju lotu kom Ármanni yfir og þá var 16 lotu runa komin af stað. Leikmenn Ármanns léku glæsilega hvor af öðrum og hindruðu þannig að Fylkir gæti nýtt þau tækifæri sem liðið þó fékk.

Ofvirkur var allt í öllu í leik Ármanns, átti fjöldan allan af opnunum og margföldum fellum. Hungrið skein í gegn og ljóst að 16–3 tapið gegn Dusty í síðustu viku hefur einungis hitað undir Ármanni. Vargur skellti í einn klassískan ás á rampinum í 14. lotu og kláraði leikinn með tvöfaldri fellu á sprengjusvæðinu í þeirri 17.

Lokastaða: Ármann 16 – 1 Fylkir

Með sigrinum, sem er sá stærsti á tímabilinu til þessa kom Ármann sér upp í 3. sæti deildarinnar, en Þór, SAGA og NÚ eiga öll leik til góða. Fylkir er enn einungis með 2 stig og situr í 6. sæti.

Næstu leikir liðanna:

  • Fylkir – Dusty, fimmtudaginn 13/10, klukkan 20:30.
  • NÚ – Ármann, fimmtudaginn 13/10, klukkan 21:30.

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira