Stalz kom sínum mönnum á blað

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Stalz

Hugo átti tvær fellur til að vinna hnífalotuna fyrir TEN5ION og byrjaði hans lið því í vörn. Stalz tryggði LAVA aftur á móti fyrstu lotuna og með góðum fellum frá honum, Goa7er og Spike komst LAVA í 6–0. Liðið lék yfirvegað og af miklu öryggi framan af í eitraðri sókn.

Fyrsta tækifæri TEN5ION kom þegar liðið náði loks opnun í 7. lotu sem Vikki fylgdi eftir með þrefaldri fellu. Við það hrökk TEN5ION í gang og hélt uppteknum hætti. Hugo fór fyrir mjög þéttri vörn TEN5ION sem náði undir lokin yfirhöndinni í leiknum.

Staða í hálfleik: LAVA 7 – 8 TEN5ION

Leikurinn var nokkuð jafn í síðari hálfleik þar sem liðin skiptust á lotum í upphafi. Fjórföld fella frá Tight í 16. lotu hélt tæpu forskoti TEN5ION áður en LAVA náði forystunni loks á nýjan leik eftir glæsilega sparlotu þar sem þeir rændu vopnum af leikmönnum TEN5ION.

Eftir slappa fjárhagsstöðu vopnaðist TEN5ION á ný og setti pressu um allt kortið. Það skilaði sér í því að TEN5ION komst í stöðuna 14–12. Undir lokin spýtti LAVA hins vegar í lófana, Funky átti frábæra lotu á vappanum, LAVA hélt ró sinni og stillti upp í góðar endurtökur þar sem sprengja TEN5ION fékk aldrei að springja.

Lokastaða: LAVA 16 – 14 TEN5ION

LAVA er því komið með 2 stig á tímabilinu og situr á miðri töflunni en TEN5ION er enn stigalaust. Eftir leikinn sagði Funky að sigurinn væri vel tímabær. Stemningin í liðinu væri góð þó menn viti að það geti tekið tíma að fá hlutina til að smella.

Næstu leikir liðanna:

  • Dusty – TEN5ION, þriðjudaginn 4/10, klukkan 19:30
  • Breiðablik – LAVA, fimmtudaginn 6/10 klukkan 19:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira