Sport

Kol­brún Þöll sleit hásin og missir af EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kolbrún Þöll mun ekki taka þátt á EM í ár.
Kolbrún Þöll mun ekki taka þátt á EM í ár. Fimleikasamband Íslands

Kolbrún Þöll Þorradóttir, landsliðskona í hópfimleikum, verður ekki með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu sem hefst síðar í vikunni. Hún sleit hásin á æfingu í gærkvöldi, mánudag. Ljóst er að um mikið áfall er að ræða fyrir Kolbrúnu Þöll sem og íslenska landsliðið.

Kolbrún Þöll er þaulvön landsliðskona og var mikilvægur hluti hópsins sem gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari á síðasta ári. Þar var hún valin í úrvalslið mótsins og á endanum varð hún í öðru sæti í valinu á íþróttamanni Íslands árið 2021.

Kolbrún Þöll greinir frá þessu sjálf á Instagram-síðu sinni. Þar segir:

„Seinasta æfingin fyrir EM fór því miður ekki eins og ég ætlaði mér, hásinin var ekki alveg með mér í liði og ákvað að gefa sig kvöldið fyrir brottför.“

Landsliðskonan hefur þó fulla trú á samherjum sínum og ætlar sér ekki að missa af mótinu.

„Hlakka til að sjá stelpurnar mínar blómstra og uppskera í Lúxemborg og styðja við þær á hliðarlínunni,“ segir að endingu í Instagram-færslu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×