Lífið

Netflix frestar tökum á The Crown

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þættirnir The Crown eru ástarbréf Peter Morgan til Elísabetar. Á myndinni má sjá Claire Foy í hlutverki Elísabetar drottningar.
Þættirnir The Crown eru ástarbréf Peter Morgan til Elísabetar. Á myndinni má sjá Claire Foy í hlutverki Elísabetar drottningar. Netflix

Peter Morgan höfundur Netflix þáttanna The Crown hefur tilkynnt að tökum verði frestað ótímabundið af virðingu við drottninguna. Elísabet Bretlandsdrottning lést í gær 96 ára að aldri, en Morgan hefur áður talað um að þættirnir séu „ástarbréf“ til hennar. 

Morgan gerði einnig kvikmyndina The Queen sem kom út árið 2006. Tökur standa nú yfir á sjöttu þáttaröð þáttanna. Til stóð að byrja að sýna fimmtu þáttaröðina af The Crown í nóvember en ekki liggur fyrir hvort dagsetningunni verði breytt. Imelda Staunton fer með hlutverk Elísabetar í þessari þáttaröð. 

„Krúnan er ástaróður til drottningarinnar og ég hef engu við sögu hennar að bæta núna, öðru en þögn og virðingu,“ sagði Morgan í samtali við Deadline.

Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag hefur Buckingham höll tilkynnt að Karl konungur sé búinn að taka ákvörðun um að þjóðarsorg muni ríkja frá deginum í dag þar til sjö daga eftir útför Elísabetar annarrar Bretadrottningar. Útfarardagur drottningarinnar verður opinber frídagur.

Allir opinberir fánar hafa nú verið dregnir í hálfa stöng og leiðbeiningar hafa verið sendar út um að hringja kirkjuklukkum á hádegi. Þá verður hleypt af 96 skotum í Hyde Park og víðar, einu sinni fyrir hvert ár sem drottningin lifði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×