Lífið

Ætla að flytja frá Banda­ríkjunum vegna skot­á­rása

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ozzy og Sharon hafa verið gift í fjörutíu ár.
Ozzy og Sharon hafa verið gift í fjörutíu ár. Getty/Jeff Kravitz

Breski söngvarinn Ozzy Osbourne og eiginkona hans, Sharon, ætla að flytja frá Bandaríkjunum á næstunni eftir að hafa búið þar í tugi ára. Ástæðan mun vera að Ozzy er ósáttur með fjölda þeirra sem látast í skotárásum í landinu.

Ozzy hefur búið í Los Angeles ásamt Sharon síðustu tuttugu ár. Í viðtali við The Observer segist Ozzy þó vera á leiðinni aftur heim til Buckingham-skíris í Bretlandi.

„Ég er kominn með nóg af því að fólk sé drepið á hverjum einasta degi. Guð veit hversu margir hafa verið skotnir í skotárásum í skólum. Þetta er brjálæði,“ segir þessi 73 ára gamli fyrrum söngvari hljómsveitarinnar Black Sabbath. Hann vill ekki deyja í Bandaríkjunum og því sé ekki annað í stöðunni en að fara aftur heim til Bretlands.

Í viðtali við The Mirror fyrr á þessu ári gaf Ozzy þó upp aðra ástæðu fyrir því að hann vildi fara heim til Bretlands. Þar sagði hann að hann þyrfti að greiða allt of háa skatta í Bandaríkjunum.

Samkvæmt CNN hafa 440 skotárásir verið framdar í Bandaríkjunum það sem af er árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×