Bíó og sjónvarp

House of Dragon slær áhorfsmet hjá HBO

Samúel Karl Ólason skrifar
Matt Smith í hlutverki Daemon Targaryen.
Matt Smith í hlutverki Daemon Targaryen.

Þættirnir House of the Dragon virðast fara gífurlega vel af stað og hafa þættirnir þegar slegið nokkur áhorfsmet hjá HBO. Fyrsti þáttur HOD braut frumsýningarmet fyrirtækisins bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Í Bandaríkjunum horfðu tæplega tíu milljónir á fyrsta þáttinn á HBO og streymisveitunni HBO Max þegar hann var frumsýndur. Í Bretlandi, þar sem Sky er með sýningarréttinn á HBO, horfðu 1,9 milljónir á frumsýninguna og var það einnig met.

Þá var þátturinn sýndur á mánudaginn í tuttugu og einu Evrópuríki og segir HBO að þar hafi einnig verið slegið met, án þess þá að gefa upp einhverjar tölur. Talsmaður HBO sagði Variety að fyrsti þátturinn hefði farið langt fram úr væntingum forsvarsmanna fyrirtækisins.

Þegar síðasti þáttur Game of Thrones var sýndur í maí 2019 horfðu 18,4 milljónir á frumsýninguna, samkvæmt The Wrap.

Þættirnir House of the Dragon eru ekki aðgengilegir áhorfendum á Íslandi og mörgum öðrum löndum heimsins, nema með krókaleiðum.

Sjá einnig: HBO Max ekki væntanleg til Íslands fyrr en 2024

House of the Dragon byggir á bókinni Fire and Blood, sem fjallar um sögu Targaryen ættarinnar í Westeros. Þættirnir fjalla sérstaklega um þann hluta bókarinnar sem snýr að nokkurs konar borgarastyrjöld innan ættarinnar um hverjir eiga að stýra ríkinu. Styrjöld þessi gengur undir nafinu Dance of Dragons og verður nóg af drekum í þáttunum.

Þættirnir gerast tæplega tvö hundruð árum fyrir atburði Game of Thrones. Targaryen-ættin er á hápunkti valdatíðar sinnar í Westeros þegar konungurinn Viserys fyrsti þarf að ákveða hver eigi að vera formlegur erfingi hans. En elsta barn hans er dóttirin Rhaenyra Targaryen og á hann bróður sem heitir Daemon Targaryen.

Viserys eignast einnig tvo unga syni með nýrri drottningu en án þess að fara út í einhverja spennuspilla, þá reynist erfingjamálefnið erfitt. Viserys vill ekki að bróðir hans verði konungur en Rhaenyra er kona og lávarðar Westeros eiga erfitt með að sætta sig við konu við völd.

Eigi áhugasamir erfitt með að halda utan um hverjar tilteknar persónur þáttanna eru og hverjar tengingarnar þeirra á milli eru, má benda á gagnvirkt ættarkort á vef HBO.

Ísland er skráð sem tökustaður í mörgum þáttum seríunnar og þar á meðal þeim fyrsta. Ekki er þó ljóst hvaða tökur fóru fram hér á landi.

Til stendur að gera sögu House of the Dragon skil í þremur til fjórum tíu þátta þáttaröðum. Þær gætu þó orðið fleiri samkvæmt forsvarsmönnum þáttanna, þar sem hægt verður að fara fram og aftur í tímalínu Westeros og segja fleiri sögur sem tengjast Targaryen ættinni.

HBO vinnur einnig að þróun fleiri þáttaraða úr söguheimi George RR Martin. Þar á meðal eru framhaldsþættir um Jon Snow og þættirnir 10.000 ships, sem eiga að fjalla um stríðskonuna og drottninguna/prinsessuna Nymera, stofnanda konungsríkisins Dorne. Saga hennar gerist um þúsund árum fyrir sögu Game of Thrones þáttanna og var prinsessan einmitt nefnd í fyrsta þætti House of the Dragon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×