Veður

Von á á­gætis­veðri á Menningar­nótt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá tónleikum Bylgjunnar á Menningarnótt árið 2019.
Frá tónleikum Bylgjunnar á Menningarnótt árið 2019. Vísir/Daniel Þór

Veðurspáin lítur ágætlega út fyrir þá sem ætla sér að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Engin úrkoma er í kortunum og nokkuð bjart og fínt veður verður framan af degi.

Í hádeginu á laugardaginn er spáð fimm til tíu metrum á sekúndu en draga á úr vindum um kvöldið. Reykvíkingar ættu að ná að sleppa við rigningu allan daginn.

„Þetta er sama lægð sem stýrir veðrinu á laugardaginn og er að valda þessum stormi og hvassviðri í dag. Hún sígur þarna austur fyrir landið og beinir þessari norðanátt yfir á laugardaginn. En svo fjarlægist hún þarna aðfaranótt sunnudags og það lægir heldur, en áfram svalt,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur, í samtali við fréttastofu.

Um kvöldið þegar ýmsir viðburðir tengdir Menningarnótt fara fram gæti hitinn farið aðeins niður, líklegast í sex til átta stig. Þorsteinn mælir með að fólk taki með sér húfuna ef það ætlar út um kvöldið.


Tengdar fréttir

Þétt dagskrá á langþráðri Menningarnótt í Reykjavík

Menningarnótt verður loksins haldin á ný þann 20. ágúst næstkomandi. Blaðamannafundur fór fram í dag þar sem dagskráin var kynnt ásamt ýmsum skemmtiatriðum. Vísir sýndi frá fundinum í beinni útsendingu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×