Það var fyrirséð að sala Símans á Mílu til Ardian sem tilkynnt var um í október í fyrra myndi valda nokkrum pólitískum deilum. Allt gekk það saman eftir, þótt þær reyndust líkast til minni en sumir hefðu búist við. Salan var gagnrýnd af stjórnarandstöðuþingmönnum – einkum úr röðum Samfylkingarinnar – og hún meðal annars sögð kunna að stefna þjóðaröryggi Íslands í tvísýnu en lítil innstæða var fyrir þeim gífuryrðum eins og jafnan áður komandi úr þeirri átt.
Franska sjóðastýringarfyrirtækið, með áralanga reynslu af sambærilegum innviðafjárfestingum í Evrópu, hafði unnið heimavinnu sína vel í aðdraganda kaupanna. Félagið var meðvitað um að viðskiptin yrðu umdeild og því mikilvægt að standa að þeim í sem mestri sátt við yfirvöld og aðra haghafa hér á landi. Ardian hafði í því skyni meðal annars frumkvæði að því að bjóða íslenskum lífeyrissjóðum aðkomu að viðskiptunum með því að eignast fimmtungshlut á sömu kjörum og gerði í kjölfarið samkomulag við stjórnvöld um tilteknar kvaðir vegna mikilvægis fjarskiptaneta Mílu. Þá var það niðurstaða starfshóps fjölmargra ráðuneyta að kaup franska sjóðsins ógnuðu ekki þjóðaröryggi.
Færri áttu aftur á móti von á því að viðskiptin kynnu að vera í uppnámi tíu mánuðum síðar vegna afstöðu Samkeppniseftirlitsins. Svo er nú samt staðan um þessar mundir. Samkeppniseftirlitið, ásamt helstu keppinautum Símans, hefur um árabil gert margvíslegar athugasemdir við núverandi eignatengsl sem hefur verið talið sérstakt samkeppnisvandamál vegna lóðréttrar samþættingar fjarskiptainnviða á heildsölustigi og fjarskiptaþjónustu á smásölustigi. Með sjálfstæðri Mílu mun samkeppnisstaðan á milli Nova, Vodafone og Símans jafnast verulega frá því sem nú er og um leið ætti salan að gefa Samkeppniseftirlitinu vinnufrið til að beina kröftum sínum að öðrum geirum.
Samkeppniseftirlitið horfir lítið til þeirrar miklu gerjunar sem einkennir fjarskiptamarkaði og virðist óttast að þjónustusamningurinn sem tekur gildi milli Mílu og Símans eftir kaupin muni stefna mögulegum framtíðarviðskiptum hins opinbera fyrirtækis Ljósleiðarans og Símans í hættu.
Stofnunin, sem hefur lengi kallað eftir því að slitið væri á eignarhald Símans og Mílu, virðist hins vegar ætla að leggja sig fram um að af því geti ekki orðið þannig að til verði hreinræktað viðskiptasamband. Þess í stað er Samkeppniseftirlitinu nú mjög umhugað um sáttina sem var fyrst gerð á milli Símans og Mílu 2013, að undirlagi eftirlitsins, og ver hana af miklum krafti. Það sem er undirliggjandi í helstu athugasemdum Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna, sem voru fyrst kynnt fulltrúum Ardian þann 1. júlí síðastliðinn eftir að hafa verið til rannsóknar í fimm mánuði, snýr að Ljósleiðaranum. Stofnunin, sem horfir lítið til þeirrar miklu gerjunar sem einkennir fjarskiptamarkaði, virðist óttast að þjónustusamningurinn sem tekur gildi milli Mílu og Símans eftir kaupin muni stefna mögulegum framtíðarviðskiptum hins opinbera fyrirtækis og Símans í hættu.
Góð niðurstaða fyrir Ljósleiðarann
Ljósleiðarinn er félag með markaðsráðandi stöðu á stærsta markaðssvæði landsins á höfuðborgarsvæðinu og starfar vart á sömu markaðslegu forsendum og einkafyrirtæki. Það verður því að teljast langsótt að Samkeppniseftirlitið sé að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja sjálfbærni í rekstri fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Allt er þetta með nokkrum ólíkindum. Núverandi fyrirkomulag – með Símann áfram sem eiganda Mílu með því samkeppnisforskoti sem því fylgir gagnvart keppinautum sínum – er augljóslega enn síður til þess fallið að Síminn fari að beina viðskiptum sínum í meira mæli til Ljósleiðarans eða annarra fyrirtækja á heildsölumarkaði.
Erfitt er að sjá hvernig innkoma nýs erlends langtímafjárfestis geti skaðað þá samkeppni sem er fyrir á markaði en að óbreyttu er ljóst að gangi kaupin ekki eftir, vegna afstöðu Samkeppniseftirlitsins, þá mun Míla áfram vera fjársvelt í faðmi Símans. Það kann jú vissulega að vera fín niðurstaða fyrir borgarfyrirtækið Ljósleiðarann sem þarf þá síður að hafa áhyggjur af samkeppni frá Mílu á sama tíma og það eykur nú mjög umsvif sín.
Samkeppniseftirlitið er þeirrar skoðunar að sá samningur á milli Símans og Mílu sem tekur við afhendingu félagsins til Ardian muni hindra virka samkeppni og með honum kunni að skapast einokunarstaða á heildsölumarkaði. Slíkir þjónustusamningar, sem alþekkt er að séu til tuttugu ára, eru markaðsvenja þegar kemur að fjölmörgum sambærilegum viðskiptum með fjarskiptainnviði í Evrópu. Án slíks langtímasamnings væri ekki um nein viðskipti að ræða á annað borð en hlutdeild Símans í tekjum Mílu er nálægt 80 prósent. Það væri einfaldlega ekki neitt fyrir Ardian að kaupa.
Til að bregðast við kröfum Samkeppniseftirlitsins hefur franska félagið endursamið við Símann og fallist á að stytta gildistíma þjónustusamningsins um þrjú ár og heildarkaupverðið í viðskiptunum lækkað úr 78 milljörðum í 73 milljarða króna. Afar ósennilegt er að þær breytingar, ásamt öðrum sem hafa verið lagðar til á samningunum, muni duga til að fá samrunann samþykktan af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Fulltrúar Ardian funduðu með forstjóra og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar í dag og ljóst er að enn ber talsvert á milli. Eftirlitið, meðal annars byggt á þeim umsögnum sem það hefur aflað frá Fjarskiptastofu og öðrum hagsmunaaðilum á fjarskiptamarkaði, telur að tillögur sjóðastýringarfyrirtækisins að skilyrðum til að afstýra meintum samkeppnishömlum vegna viðskiptanna gangi alltof skammt.
Mun Ardian labba í burtu frá kaupunum?
Hvað gerist næst? Fullvíst má telja að kaupin munu að óbreyttu ekki klárast nema Ardian og Síminn setjist aftur niður og semji um enn meiri lækkun á kaupverðinu samhliða því að gera frekari breytingar á þjónustusamningnum og stytti hann verulega – óvíst er hins vegar hversu langt stjórn Símans er reiðubúin að ganga í þeim efnum. Sá möguleiki að upp úr samkomulaginu muni slitna milli Ardian og Símans vegna harðra andmæla Samkeppniseftirlitsins og franska félagið labbi í burtu frá kaupunum er alls ekki lengur óraunhæfur eins og málið stendur um þessar mundir. Viðskiptin hanga nú á bláþræði.
Erfitt er að sjá hvernig innkoma nýs erlends langtímafjárfestis geti skaðað þá samkeppni sem er fyrir á markaði en að óbreyttu er ljóst að gangi kaupin ekki eftir þá mun Míla áfram vera fjársvelt í faðmi Símans. Það kann jú vissulega að vera fín niðurstaða fyrir borgarfyrirtækið Ljósleiðarann.
Fyrir Ardian kunna þau viðskiptalegu sjónarmið sem lágu að baki kaupunum einfaldlega að vera ekki jafn sterk og þegar samkomulagið var undirritað fyrir hartnær einu ári síðan. Bæði vegna þeirra íþyngjandi skilyrða sem Samkeppniseftirlitið kallar eftir og þá hafa eins allar ytri aðstæður breyst til hins verra á þeim langa tíma sem málið hefur verið á borði íslenskra samkeppnisyfirvalda. Vaxtastig beggja vegna Atlantsála fer hækkandi, bankar eru tregari til að fjármagna mörg verkefni og almennt eru erfiðari markaðsaðstæður fyrir framtakssjóði eins og Ardian sem hafa margir hverjir þurft að mæta talsverðu útflæði af hálfu fjárfesta.
Það getur vart verið gott til afspurnar þegar erlendir sjóðir sem hyggjast fjárfesta til langframa upplifa stjórnsýsluna eins furðulega og raunin hefur verið í þessu máli þar sem um er að ræða stærstu beinu erlendu fjárfestingu hér á landi í vel á annan áratug.
Innan stofnunnarinnar virðist því miður ekki vera geta til þess að takast á viðskipti af slíkri stærðargráðu þannig að málshraðinn sé innan eðlilegra marka og í samræmi við það sem þekkist í öðrum nágrannalöndum. Í hverju málinu á fætur öðru sem ratar á borð Samkeppniseftirlitsins eru langvinnar tafir á málsmeðferðinni orðnar alvanalegar – vegna oft og tíðum illskiljanlegra skilyrða af hálfu eftirlitsins í að því er virðist þeim eina tilgangi að reyna handstýra markaðnum – með tilheyrandi skaða sem það veldur starfsemi fyrirtækjanna sem eru undir. Um það vitna ófá dæmi á síðustu árum.
Stjórnmálamennirnir segja pass
Af hverju er verið að selja Mílu? Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt víða um heim að fjarskiptainnviðir séu aðskildir frá fjarskiptaþjónustu og í kjölfarið sameinaðir, eða samnýttir betur. Það sem hefur drifið áfram þá þróun eru meiri kröfur neytenda og hröð tækniframþróun sem þýðir að þörf er á enn meiri fjárfestingum í fjarskiptainnviðum. Erfitt er hins vegar að réttlæta fjárfestingar af slíkri stærðargráðu nema sérhæfing og stærðarhagkvæmni sé til staðar.
Innan stofnunnarinnar virðist því miður ekki vera geta til þess að takast á viðskipti af slíkri stærðargráðu þannig að málshraðinn sé innan eðlilegra marka og í samræmi við það sem þekkist í öðrum nágrannalöndum.
Fyrir utan að búa til umtalsverð verðmæti fyrir hluthafa Símans, sem eru að tveimur þriðju íslenskir lífeyrissjóðir, þá mun breytt eignarhald þess vegna auka samkeppni og stuðla að lægra verði – bæði á neytenda- og heildsölumarkaði – og flýta fyrir meiri fjárfestingu í innviðauppbyggingu fjarskipta, einkum á landsbyggðinni þar sem tugir bæja og þorpa eru meðal annars enn án ljósleiðaratengingar. Ardian hefur gefið það út að félagið muni ráðast í slíkar innviðafjárfestingar fyrir samtals um 28 milljarða fram til ársins 2030.
Það er ekki vanþörf á. Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar skýrslu Samtaka iðnaðarins hefur ónóg fjárfesting í innviðum hér á landi, meðal annars í fjarskiptum, valdið því að ástand þeirra er víða óviðunandi og uppsöfnuð fjárfestingarþörf er talin vera um 420 milljarðar.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu sem er einn af þeim lífeyrissjóðum sem hefur áformað að koma að kaupunum á Mílu með Ardian, hefur verið óþreytandi að benda á að þörf sé á átaki í innviðauppbyggingu. Þar eigi að horfa til þeirra meginreglna sem OECD hefur sett og er ætlað að hvetja einkafjármagn til að fjárfesta í innviðum – og þannig létta undir með stjórnvöldum – í samstarfi við meðal annars lífeyrissjóði. Fátt er betur til þess fallið, að hans mati, að laða erlent langtíma fjármagn til landsins en í gegnum innviðafjárfestingar. Slíkir sérhæfðir fjárfestar leita þá jafnan samstarfs við innlenda aðila og deila sérþekkingu sinni með okkur.
Innkoma Ardian á fjarskiptamarkaðinn, í samfloti með íslensku lífeyrissjóðunum, er einmitt skref í þessa átt.
Lítið heyrist opinberlega frá stjórnmálamönnum eða ráðherra samkeppnismála um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin nema með þeirri fyrirsjáanlegu undantekningu að þingmaður Samfylkingarinnar – sem ávallt má stóla á að sé röngum megin í flestum þjóðþrifamálum – hefur látið í veðri vaka að réttast sé fyrir ríkið að nýta færið og þjóðnýta Mílu. Óljóst er hvað ríkið ætti að taka yfir, og líklega veit þingmaðurinn það ekki almennilega sjálfur, en Míla hefur verið í einkaeigu frá árinu 2005 frá því að ríkið seldi Símann á hærra verði en samstæðan er metinn á í dag miðað við núvirði. Frá þeim tíma hefur Síminn og Míla fjárfest í fjarskiptainnviðum fyrir meira en 40 milljarða og því fjarstæðukennt, eins og stundum er af látið í umræðunni, að nú sé með einhverjum hætti verið að selja eign – Mílu – sem ríkið hafi í raun fjármagnað á sínum tíma.
Takk, en nei takk
Ísland, sem býr við meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu en nánast öll önnur OECD-ríki, er í harðri samkeppni um erlent fjármagn við aðrar þjóðir. Árangur okkar þar á umliðnum árum hefur verið vægast dræmur. Slíkar fjárfestingar þurfa vitaskuld ekki sjálfkrafa að vera jákvæðar eða betri en innlendar en í flestum tilfellum má segja að bein erlend fjárfesting hafi umtalsverða kosti í för með sér fyrir hagkerfið í heild sinni. Rannsóknir hafa sýnt að slíkt innflæði fjármagns í landið eykur hagvöxt, getur stuðlað að aukinni samkeppni, meiri sérfræðiþekkingu, innleiðingu á nýrri alþjóðlegri tækni og flýtt fyrir uppbyggingu og framleiðniaukningu í atvinnulífinu sem myndi að öðrum kosti ekki eiga sér stað. Auðveldlega má færa fyrir því rök að allt þetta eigi við í tilfelli boðaðra kaupa Ardian á Mílu sem hefur komið að um fimmtíu slíkum innviðafjárfestingum í Evrópu á undanförnum árum.
Kaupin á Mílu eru um margt prófsteinn á það hvort erlendir langtímafjárfestar megi – hafi þeir á annað borð áhuga með hliðsjón af flækjustiginu sem því oft fylgir – eiga í alvöru viðskiptum hér á landi þar sem ekki er verið að tjalda til einnar nætur.
Engum dettur í hug að það sé beinlínis markmið Samkeppniseftirlitsins að standa í vegi fyrir stórri beinni erlendri fjárfestingu inn í landið. Furðuleg afstaða eftirlitsins í þessu máli, sem hvarflaði líklega ekki að nokkrum manni þegar samkomulag um viðskiptin var undirritað í október á liðnu ári, gæti hins vegar óbeint orðið þess valdandi. Stofnunin gegnir vissulega mikilvægu hlutverki en hún er fjarri því hafin yfir gagnrýni og starfshættir og niðurstöður hennar í mörgum málum á síðari árum hafa oft sætt furðu. Þetta er eitt af þeim.
Kaupin á Mílu eru um margt prófsteinn á það hvort erlendir langtímafjárfestar megi – hafi þeir á annað borð áhuga með hliðsjón af flækjustiginu sem því oft fylgir – eiga í alvöru viðskiptum hér á landi þar sem ekki er verið að tjalda til einnar nætur, heldur áratuga, líkt og er ætlun Ardian. Þessa dagana erum við fá að svarið við þeirri spurningu, og það kemur væntanlega fáum mjög á óvart. Tafir í meðferð Samkeppniseftirlitsins, sem virðist engan endi ætla að taka, eru skýr skilaboð um að það sé líklega ekki fyrirhafnarinnar virði. Erlendir fjárfestar eru ekki velkomnir.
Höfundur er ritstjóri Innherja.