Lífið

Rödd Línunnar og Pingu látin

Árni Sæberg skrifar
Carlo Bonomi talaði fyrir Pingu og Línuna.
Carlo Bonomi talaði fyrir Pingu og Línuna. Vísir

Carlo Bonomi, sem hefur í áratugi verið tíður gestur á skjám landsmanna, er látinn 85 ára að aldri. Hann gerði garðinn frægan með túlkun sinni á persónunni Línunni í samnefndum sjónvarpsþáttum. Seinna túlkaði hann mörgæsina Pingu sem glatt hefur börn sem fullorðna um árabil.

Bonomi fæddist í Mílanó á Ítalíu árið 1937. Hann vann upphaflega fyrir sér sem trúður en hann hóf vinnu við talsetningar þegar hann talaði fyrir Línuna í örþáttum Osvaldo Cavandolis um Línuna geðþekku árið 1971. Bonomi las inn á alla þættina án handrits enda bjó hann tungumálið, ef slíkt skyldi kalla, sem Línan talaði.

Línan er Íslendingum að góðu kunn enda voru þættirnir notaðir sem uppfyllingarefni á RÚV um árabil. Þættirnir eru víða notaðir sem uppfyllingarefni enda eru þeir allir undir þremur mínútum að lengd.

Þá var Línan áberandi persóna á árunum í aðdraganda efnahagshrunsins enda lék hún aðalhlutverk í auglýsingaherferð Kaupþings árið 2006. Þá hafði Bonomi reyndar látið af störfum sem Línan. 

Nýtti Línuna sem fyrirmynd mörgæsar

Bonomi talsetti allar persónur í fyrstu fjórum þáttaröðum hinna geysivinsælu barnaþátta um mörgæsina Pingu og fjölskyldu hans. Bonomi nýtti tungumálið sem Línan talaði til að skapa nýtt tungumál fyrir mörgæsirnar. Það er á ensku kallað penguinese, sem gæti útlagst sem mörgæska á íslensku.

Þættirnir um Pingu og fjölskyldu hafa notið mikilla vinsælda og voru sýndir hér á landi á Stöð 2. Þá voru þættirnir tilnefndir til hinna virtu BAFTA-verðlauna. Hér að neðan má sjá fyrsta þátt Pingu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×